Harðir jarðskjálftar urðu á Reykjanesskaga í gærkvöldi og fram á nótt, sá sterkasti 5,0 og átti upptök á Sveifluhálsi vestan Kleifarvatns. Sá skálfti var eðlilega harðastur í Krísuvík en fannst mjög vel á höfuðborgarsvæðinu og reyndar nær öllu suður og vesturlandi.
Í dag bárust gervihnattamyndir sem sýna að kvikugangurinn liggur mjög grunnt norður af gosstöðvunum frá því í fyrra og í átt að Keili, jafnvel á innan við 1 km dýpi. Innstreymi kvikunnar er tvöfalt á við það sem var fyrir gosið í fyrra og má því búast við mun öflugra gosi.
Gosstöðvarnar yrðu væntanlega norðanvestan við Meradali þar sem greið leið yrði fyrir hraunrennsli í norður niður farvegi eldri dyngjuhrauna í átt að Reykjanesbrautinni. Það eru þó einir 8-9 km þangað svo bráð hætta er varla fyrir hendi.
Skjálftavirkni hefur farið heldur minnkandi nú seinni partinn og fram á kvöld en það gæti verið merki um að kvikan sé komin það nálægt yfirborði að hún sé við það að hætta að þurfa að brjóta bergið og að þá styttist í gosið.