Reykjanesskagi

Eldgosið var lítið en atburðurinn stór

GPS graf á vef Veðurstofunnar frá stöðinni við Svartsengi sýnir svo ekki sé um vilst að landris er hafið enn á ný. Neðsta myndin sýnir landris en hinar hliðarfærslur.

Eldgosið sem hófst 1.Apríl síðastliðinn stóð aðeins yfir í örfáar klukkustundir og var í raun bara “leki” úr stóru kvikuinnskoti sem myndaði allt að 20 kílómetra langan kvikugang frá Grindavík og langleiðina að Keili.  Þetta var langlengsti kvikugangurinn sem myndast hefur síðan þessi umbrot öll hófust.

Það kom vísindamönnum á óvart að kvika næði ekki til yfirborðs á hefðbundnum slóðum því kvikumagnið sem fór á hreyfingu var það mesta síðan 10. Nóvember 2023 þegar stóri kvikugangurinn myndaðist undir Grindavík.  Hversvegna þetta gerðist með þessum hætti er ekki ljóst.  Þá var meira rúm fyrir kviku neðanjarðar í sprungusveimnum en reiknað hafði verið með.

Veruleg jarðskjálftavirkni hefur fylgt þessum umbrotum og skýrist af myndun kvikugangsins.  Bergið í kringum ganginn aflagast og spenna byggist upp og losnar í skjálftum jafnvel allfjarri kvikuganginum eins og stórir skjálftar við Reykjanestá sýna.  Þetta hafa fræðingar kallað hinu frekar óþjála orði “gikkskjálftar”.

Landris er greinilega hafið á ný og virðist nokkuð hratt.  Það er því fátt sem bendir til þess þessum umbrotum sé lokið því miður.  Það má því búast við enn einu kvikuhlaupi eða eldgosi síðsumars, ca Júlí – Ágúst.  Þar sem þessi atburður sem hófst 1.Apríl hagar sér öðruvísi en undanfarnir atburðir sem flestir enduðu með eldgosum á miðbik Sundhnúkagígaraðarinnar, þá er erfitt að segja til um hvað kvikan gerir næst.  Mögulega á hún orðið erfiðara með að komast upp við Sundhnúk og gæti leitað annað, t.d. í Eldvörp.  Það er allavega enn mikil óvissa um lok þessara Svartsengiselda.

ELDGOS HAFIÐ – GOSSPRUNGAN TEYGIR SIG INN FYRIR VARNARGARÐA VIÐ GRINDAVÍK

  • ÖFLUG JARÐSKJÁLFTAHRINA HÓFST Á SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI UM KL. 6 30 Í MORGUN ER KVIKUHLAUP HÓFST. 
  • ELDGÓS HÓFST Á 10. TÍMANUM EN ER ENN SEM KOMIÐ ER LÍTIÐ EN STAÐSETNINGIN HÆTTULEG.
  • MIKIL KVIKA Á FERÐINNI SEM LEITAR NORÐUR EFTIR SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI OG GÆTI BROTIST ÞAR UPP.
Skjáskot af vefmyndavél Morgunblaðsins 

Þrátt fyrir að eldgos sé hafið þá er mikil óvissa um framhaldið þar sem meiri kvika er á ferðinni en verið hefur í aðdraganda undanfarinna eldgosa.  Miðað við jarðskjálftavirkni virðist sem kvikugangurinn sé að teygja sig norðaustur og er kominn þegar þetta er skrifað aðeins fáeina kílómetra frá Reykjanesbrautinni.  Ef eldgos verður á þeim slóðum er brautin í hættu.  

Þetta eldgos lét bíða óvenjulengi eftir sér, aldrei hefur verið meira kvikumagn í kvikuhólfinu undir Svartsengi og hefur verið búist við gosi í nokkrar vikur.  Það er þó greinilega smámsaman að hægja á rennsli í þetta kvikuhólf og verður að telja líklegt að þetta sé síðasta gosið í þessari hrinu. Líklegt, en þarf þó ekki endilega að vera.

Gossprungan nær lítillega inn fyrir varnargarða við Grindavík en þar er virknin þó mjög lítil enn sem komið er.  Sprungan er á sömu línu og í gosinu í janúar í fyrra þegar einnig gaus innan varnargarðanna og þrjú hús fóru undir hraun.   Hún teygir sig þó ekki eins langt að bænum og virðist sem stendur ekki stórkostleg hætta á ferðum en meðan gýs þá getur þetta breyst án fyrirvara.  Mesti krafturinn er í gosinu norðan varnargarðanna þar sem þeir hlifa bænum og stafa ekki hætta frá þeim hluta gossprungunnar að óbreyttu.

Eldgosið að fjara út – Landris hafið á ný

Gögn frá Veðurstofu Íslands sem sýna GPS færslur á mælistöðinni í Skipastígshrauni.

Gosið sem hófst á Sundhnúkagígaröðinni þann 20. nóvember er í andaslitrunum að því er virðist.  Eftir nokkuð kröftuga byrjun datt virknin niður eftir nokkra daga en hélst svo síðustu vikuna nær óbreytt þar til í nótt.  Nú er ekki að sjá að hraun renni lengur frá gígnum, þeim eina sem hefur verið virkur síðustu vikuna.

Veðurstofa Íslands hefur tilkynnt að nýjustu aflögunargögn bendi til þess að landris sé hafið á ný.  Ekki er tekið fram hversu hratt það er en það ætti að skýrast fljótlega eftir að gosinu lýkur sem flest bendir til þess að sé á allra næstu dögum.  Ef eitthvað hefur dregið úr innflæði í grynnra kvikuhólfið þá er það sennilega mjög lítið.  Það má því reikna með nýjum viðburði innan þriggja mánaða, jafnvel fyrr.  Allavega er ljóst að þessum atburðum er hvergi nærri lokið.

Meðfylgjandi mynd sýnir GPS grafið fyrir Skipastígshraun sem staðsett er rétt vestan við miðju kvikuhólfsins.  Á neðstu myndinni sést vel að landris er þegar hafið.  Það er einnig athyglisvert að land seig ekki jafn mikið og í fyrri gosum sem gæti þýtt að styttra er í næsta viðburð en ella, því land þarf ekki að rísa eins mikið til að ná sömu hæð á ný og fyrir þetta gos.  Það fer þó allt eftir hraða landrissins á næstu vikum.

Það hefur verið nokkur umræða um að það sé farið að sjá fyrir endann á þessari goshrinu.  Innstreymi kviku úr neðra kvikuhólfinu í það efra hefur eitthvað hægt á sér en alls ekki mikið, hefur raunar verið því sem næst stöðugt frá því í maí.  Jarðfræðingar hafa bent á að nú virðist álíka mikið magn af kviku hafa náð yfirborði og í upphafi síðustu goshrinu fyrir um 1200 árum.  Sú hrina varð reyndar í Krýsuvíkurkerfinu.  Síðar á því eldgosaskeiði varð goshrina í Eldvörpum og vestast á Reykjanesskaganum sem náði út fyrir ströndina.  Sú hrina stóð yfir í um 30 ár og vantar líklega enn talsvert uppá að kvikumagni þeirrar hrinu sé náð núna.  Að mínu mati á þessi hrina meira skilt með þeirri hrinu en þeirri sem varð í Krýsuvík á 9. öld.  

Þá er einnig óvissuþáttur fólginn í hve auðvelt kvikan á með að komast úr neðra kvikuhólfinu (sem er gríðarlega stórt) í það efra og þaðan til yfirborðs. Í fyrri hrinum síðustu 3000 árin hefur kvikan staldrað mikið lengur við í efri kvikuhólfum áður en hún nær yfirborði.  Þetta gæti skýrt hve tíð gosin eru og hve mikið magn kviku er að ná yfirborði á stuttum tíma.   

Þetta gæti þýtt tvennt:  Annarsvegar að hrinan ljúki sér af mikið fyrr en aðrar hrinur sem staðið hafa yfir í áratugi og skili ekki mikið meira magni af kviku til yfirborðs en orðið er.   –  Hinsvegar að vegna þess hve auðvelt kvikan á með að ná yfirborði þá muni í heildina koma talsvert eða miklu meira magn kviku til yfirborðs en í sambærilegum hrinum síðustu árþúsundin.  Þetta gæti þýtt að enn séu mörg ár eftir af þessari atburðarrás en virknin gæti hlaupið á milli kerfa og þá líklegast út í Eldvörp eða út á Reykjanestá.  

ELDGOS HAFIÐ Á SVIPUÐUM SLÓÐUM OG Í ÁGÚST

Eldgosið séð frá Reykjanesbraut skömmu eftir miðnætti, u.þ.b. klukkutíma eftir að hófst.

Eldgos hófst á tólfta tímanum í gærkvöldi á Sundhnúkagígaröðinni.  Svo virðist sem gossprungan sé á nákvæmlega sama stað og í gosinu sem hófst 23. Ágúst.  Gosið er þó að sjá töluvert minna.  Sprungan er um 2,5-3km og kvikustrókar mun lægri en í upphafi síðasta goss.  Þá er gossprungan á hentugum stað með tilliti til innviða og lítur ekki út fyrir að þeir séu í neinni hættu.  Þó er ekki hægt að útiloka að gosið eigi eftir að sækja í sig veðrið en það væri þá heldur ólíkt öðrum gosum í þessari hrinu sem hófst fyrir tæpu ári síðan.  Þetta er 7. Gosið á Sundhnúkagígaröðinni , það 6. á þessu ári og það 10. síðan umbrotin á Reykjanesskaga hófust í byrjun árs árið 2021.

Eldgosið hófst eftir stutta og eiginlega óvenju máttlitla jarðskjálftahrinu en þrýstingsmælar í borholum í Svartsengi sýndu breytingar sem gjarnan verða fyrir gos á svæðinu.  Gosið hófst einnig u.þ.b. 2-4 vikum fyrr en búast hefði mátt við.  Það var klárlega ekki eins mikil kvika sem hafði safnast í kvikuhólfið undir Svartsengi og fyrir gosið í Ágúst og það skýrir væntanlega hversvegna gosið er ekki kröftugra.  Reynslan segir okkur þó að ekkert er hægt að segja til um hve lengi þetta gos lifir, það getur verið frá örfáum dögum upp í allt að tvo mánuði þó það sé varla mjög líklegt.

Síðuhöfundur brá sér útá Reykjanesbraut og tók myndir.  Víst er gosið tignarlegt en miklum mun minna en upphaf gossins í ágúst.

Eldgosinu lokið og landris hafið

Fólk að virða gosið fyrir sér frá Grindavíkurvegi þann 26.Ágúst síðastliðinn. Mynd: Óskar Haraldsson

Eldgosinu norðan við Stóra-Skógfell lauk síðastliðna nótt.  Dregið hafði nokkuð hratt úr krafti þess síðustu sólarhringa og ljóst í hvað stefndi.  Gosið stóð yfir í um 13 sólarhringa.  Um leið virðist landris hafa hafist enn á ný undir Svartsengi.  Ekki er að svo stöddu hægt að segja til um hvort það sé álíka mikið og fyrir síðustu gos, líklega nokkrir dagar í það að hægt verði að meta hraða þess.

Hvert gosanna á Sundhnúkagígaröðinni hefur sitt sérkenni og að þessu sinni kom á óvart hve norðarlega gosið kom upp.  Staðsetningin var vissulega heppileg hvað varðar Grindavík og Svartsengi en ef virknin heldur áfram að færast norður eða norðaustur í næsta gosi, ef af því verður, þá er ástæða til að hafa áhyggjur af Reykjanesbrautinni og jafnvel Vogum.  Það verður eflaust umræða um það á næstu vikum hvort ástæða sé til þess að hefja byggingu varnargarða á þessum slóðum.  

Er líklegt að það gjósi norðar ?  Í rauninni varla. Vissulega nær sprungusveimu Svartsengissvæðisins lengra í norður en gossprungur hinsvegar aðeins að takmörkuðu leiti.  Lítil gömul gossprunga er nokkuð norðaustur af síðustu gosstöðvum en varla nógu norðarlega til að ógna Reykjanesbrautinni.  Í jarðfræðilegum skilningi er þó ekki hægt að útiloka þessar vendingar frekar en margar aðrar í þessum efnum.  

Þetta var 6. eldgosið á Sundhnúkagígaröðnni síðan í desember og ekkert sem bendir til þess að þessum atburðum sé að ljúka.  Ef fram heldur sem horfir þá má reikna með enn einum atburði seint í nóvember eða snemma í desember.  Þá gætum við fengið enn eitt gosið sem er stærra og öflugra en gosið á undan.  Staðsetningin nær örugglega á Sundhnúkasprungunni en algjörlega óvist hvar.  

 

Scroll to Top