Kverkfjöll

Aukin rafleiðni og líklega hlaup í Jökulsá á Fjöllum

Jökulsá á Fjöllum
Jökulsá á Fjöllum

Rennsli Jökulsár á Fjöllum er tvöfalt á við rennslið á þessum árstíma að jafnaði og rafleiðni hefur hækkað verulega í ánni undanfarnar tvær vikur.   Áin er að auki mórauð og það er lykt af henni.   Vatnasvið Jökulsár á Fjöllum í Vatnajökli er nokkuð stórt og koma þar tvær eldstöðvar við sögu, Kverkfjöll og Bárðarbunga.  Oftast eru það einhver umbrot á Kverkfjallasvæðinu sem valda hlaupum í ánni en einnig geta umbrot í austanverðum Dyngjujökli valdið þeim en það svæði er á virknissvæði Bárðarbungu.

Engir skjálftar hafa mælst nýlega í Kverkfjöllum og ekkert sem bendir til neinna umbrota þar.  Jarðhitasvæði undir jökli geta þó lekið án þess að það valdi skjálftum.

Hinsvegar hefur verið mikill óróleiki í Bárðarbungu undanfarið, nýlega urðu þar stærstu skjálftarnir frá goslokum og að auki mældust óvenju djúpir skjálftar um 10-15km austur af Bárðarbungu en djúpir skjálftar vekja alltaf grun um kvikuhreyfingar.  Ekki er því útilokað að lítið kvikuinnskot á austanverðu Bárðarbungusvæðinu sé að valda þessu.  Í öllu falli er mun líklegra miðað við skjálftavirkni að Bárðarbunga sé að valda þessu frekar en jarðhitasvæðið við Kverkfjöll.

Ekki hefur reynst hægt að fljúga yfir svæðið vegna veðurs en þegar það tekst þá ættu upptökin að sjálst því ef katlar eru að leka þá sést það væntanlega á yfirborði jökulsins.

Uppfært 9. Nóvember

UPPTÖKIN LÍKLEGA Í KVERKFJÖLLUM

Nú bendir flest til þess að upptök þessa smáhlaups og aukinnar rafleiðni séu í Kverkfjöllum, nánar tiltekið í jarðhitasvæði sem nefnist Gengissig.  Vísindamenn hjá Járðvísindastofnun Háskóla Íslands hafa borið saman ratsjármyndir af svæðinu teknar  mismunandi timum nýlega og þær sýna smávægilegar breytingar á þessu svæði.

 

Lítið hlaup úr Lóni í Kverkfjöllum

Frá KverkfjöllumJökulstíflað lón í Kverkfjöllum við Vatnajökul sem heitir Gengissig hefur hlaupið síðustu daga í ána Volgu og þaðan í Jökulsá á Fjöllum.  Hlaupið er lítið en hafði þó það af að taka af göngubrú yfir Volgu.  Ekki varð meira tjón af völdum hlaupsins og í raun var rennsli í Jöklulsá á Fjöllum ekki meira en á hlýjum sumardegi í hlaupinu.

Mikill jarðhiti er í Kverkfjöllum, ekki síst undir umræddu lóni.  Hefur það hlaupið nokkrum sinnum svo vitað sé.  Ummerki eru  um gufusprengingar eftir hlaup þar sem stafa af snöggum þrýstingslétti.

Lengi var talið að Kverkfjöll væru afkastamikil eldstöð sem hafi gosið alloft eftir landnám.  Nýjustu rannsóknir benda hinsvegar til þess að Kverkfjöll hafi í raun alls ekki gosið eftir landnám og í raun sjaldan á nútíma.  Flest eða öll þau öskulög sem menn eignuðu Kverkfjöllum hafa eftir rannsóknir reynst koma frá Grímsvötnum eða Bárðarbungu.  Hinsvegar eru merki um mikil forsöguleg gos og stórhlaup frá Kverkfjöllum en það eru mjög gamlar gosmenjar.  Jarðskjálftavirkni er þó alltaf nokkur á svæðinu.

Fréttir í fjölmiðlum um hlaupið:

mbl.is – Hlaup úr Gengissiginu

Dv.is – Lítilsháttar jökulhlaup úr Kverkfjöllum

Skjálftar í Kverkfjöllum

.

Nokkuð hefur verið um jarðskjálfta í Kverkfjöllum við norðurbrún Vatnajökuls undanfarna sólarhringa og hafa stærstu skjálftarnir verið um og yfir 3 stig.  Kverkfjallasvæðið er virk og umfangsmikil megineldstöð.  Af og til koma fram skjálftahrinur á mælum með upptök í Kverkfjöllum og því er þetta ekkert óvenjulegt.  Á svæðinu er mikið um misgengi og einnig mikill jarðhiti.  Skjálftarnir geta vel tengst hreyfingum í kvikuhólfi Kverkfjalla eða kvikuinnskoti en ekkert sérstakt bendir þó til eldsumbrota á svæðinu á næstunni.  Oft hefur gosið í Kverkfjöllum, líklega síðast árið 1929.  Gos í Kverkfjöllum hafa í gegnum tíðina valdið miklum hlaupum í Jökulsá á Fjöllum.  Þá er talið að forsöguleg stórgos í Kverkfjöllum hafi valdið jökulhlaupum sem  hafi grafið Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands

Frétt um skjálftana á mbl.is –  Jarðskjálftahrina í Vatnajökli

Scroll to Top