Hekla

Smáskjálftar bæði í Heklu og Kötlu

Skjálftar í eldstöðvum á Suðurlandi undanfarinn sólarhring.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Skjálftar í eldstöðvum á Suðurlandi undanfarinn sólarhring. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

 

Undanfarna sólarhringa hafa smáskjálftar orðið bæði í Heklu og Kötlu.  Hvað Heklu varðar þá birtust um það fréttir nýlega að kvikusöfnun væri orðin meiri í kvikuhólfi fjallsins en fyrir síðasta gos, reyndar var hún orðin það þegar árið 2006.  Skjálftar eru fátíðir í Heklu á milli gosa en undanfarnar vikur hefur mátt greina einn og einn smáskjálfta.  Í gær (föstudagur 28.mars) urðu nokkrir slíkir skjálftar á mjög litlu svæði um 4 km. norðaustur af Heklu og voru mældir á 6-14km dýpi samkvæmt vef Veðurstofu Íslands.  Ómögulegt er að segja hvort eldgos sé beinlínis yfirvofandi í Heklu en þar sem aðeins gæti gefist klukkustund og jafnvel minna en það frá því mælingar gefa til kynna að gos sé að hefjast, þá er engan veginn hægt að mæla með því að gengið sé á fjallið.

Í Kötlu hafa mælst um 20 smáskjálftar í dag, flestir mjög litlir í grennd við Goðabungu.  Þegar stillur eru þá eru mælar næmari fyrir smáum skjálftum og því þarf þetta í sjálfu sér ekki að vera neitt óeðlilegt en þó merki þess að eldstöðin sé lifandi.  Svo smáir skjálftar (0-1) geta reyndar allt eins verið íshrun í grennd við jarðhitasvæðin sem eru fjölmörg í Mýrdalsjökli.  Katla hefur reyndar verið mun rólegri í vetur en búast hefði mátt við eftir óróleika undanfarin ár.

Annáll Heklugosa

Hekla verður að teljast nokkuð líkleg til að gjósa á næstu vikum eða mánuðum þó enn sé of snemmt að fullyrða það.  Því er ekki úr vegi að fara lauslega yfir  Heklugos á sögulegum tíma.  Vegna nálægðar Heklu við byggð þá er ekkert vafamál að öll Heklugosin eru þekkt, ólíkt því sem á við um eldstöðvar sem eru lengra uppi á hálendinu eða í Vatnajökli sem dæmi.

1104  Fyrsta gosið í Heklu eftir landnám og jafnframt það mesta.  Goshlé hefur verið amk. 250 ár frá næsta gosi á undan en svo langt hlé hefur ekki orðið á Heklugosum síðan.  Gosið var eingöngu gjóskugos og komu upp um 2,5 km3 af súrri gjósku.  Mjög mikið tjón varð enda var blómleg byggð í Þjórsárdal um þetta leyti sem eyddist svo að segja öll í gosinu.    Aðeins eitt öskugos hefur verið stærra síðan land byggðist, það varð í Öræfajökli árið 1362.  Veturinn 1105 var kallaður “sandfallsvetur” og er skýringin væntanlega öskufall eða öskufok frá gosstöðvunum enda súr ríólít askan kísilrík og eðlisléttari en gosefni úr basalti sem eru algengari.  Ekki er vitað hve lengi gosið stóð.

Óvissustig vegna hræringa í Heklu

Ríkislögreglustjóri og lögreglustjórinn á Hvolsvelli hafa lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna jarðhræringa í og við Heklu.  Eitthvað hefur verið um djúpa jarðskjálfta undanfarið við fjallið en kvikuhreyfingar mælast þó ekki.    Ekki er talið að gos sé endilega yfirvofandi en vandamálið með Heklu er að aðdragandi að gosi er yfirleitt mjög stuttur, nokkrir klukkutímar eða jafnvel enn styttri.  Með nýjum tækjabúnaði sem settur hefur verið upp síðustu ár er markmiðið að greina hættuna fyrr en þar sem þessi tæki voru ekki til staðar fyrir síðustu gos í fjallinu þá er ekki nákvæmlega vitað hvernskonar jarðskorpuhreyfingar eru undanfari goss.

Hekla gaus síðast árið 2000 og hafði þá gosið á 10-11 ára fresti frá árinu 1970.  Vitað er að þrýstingur undir eldstöðinni er orðinn meiri en hann var fyrir síðasta gos svo það ætti ekki að koma neinum á óvart  ef gos hefst á næstunni.  Verði gos í Heklu þá verður það að öllum líkindum hefðbundið fremur lítið gos eins og þau hafa verið síðustu áratugi, etv. nokkuð kraftmikið í fyrstu en dregur fljótt úr því og ólíklegt að það komi til með að valda meiriháttar skaða.

Í Júlí 2011 urðu einnig óvenjulegar hreyfingar við Heklu sem ekkert varð meira úr.

Fréttir af hræringunum í Heklu í fjölmiðlum:

Ruv.is:  Engin bráðahætta á eldgosi

Dv.is: Óvissustig vegna óvenjuegra hreyfinga í Heklu

Mbl.is: Óvissustig vegna Heklu

 

Hekla að undirbúa gos?

HeklaSamkvæmt fréttum RÚV nú í kvöld þá hafa hreyfingar komið fram undanfarna sólarhringa á mælum í nágrenni Heklu sem benda til kvikuhreyfinga.  Vitað er að kvika hefur verið að safnast fyrir undir fjallinu frá síðasta gosi fyrir rúmum 11 árum.  Heklugos gera yfirleitt ekki mikil boð á undan sér, skjálftahrina hófst aðeins einum og hálfum klukkutíma fyrir síðasta gos.  Menn verða því að vera á tánum því á þessum árstíma eru venjulega margir ferðamenn í nágrenni fjallsins.

Varla þarf að búast við neinu stórgosi í Heklu i þetta skiptið enda stutt liðið frá síðasta gosi.  Þó hafa bæði Eyjafjallajökull og Grímsvötn komið á óvart með kröftugum gosum þannig að það er óvarlegt að útiloka öflugt gos.

Scroll to Top