Hér á eftir verða rakin þau gos sem vitað er um og staðfest í Kötlu. Þessi annáll verður einnig settur inn á aðalsíðuna um Kötlu.
Á nútíma, þ.e. síðustu 10-12.000 ár hefur Katla gosið amk. 300 sinnum og virðist gostíðnin á köflum hafa verið meiri fyrir sögulegan tíma. Ummerki eru um stórgos í eldstöðinni, eitt það stærsta fyrir um 12.000 árum þegar sprengigos varð þar sem upp komu líklega um 10 rúmkílómetrar af gjósku. Til samanburðar komu upp um 0,3 rúmkílómetrar í Eyjafjallajökulsgosinu árið 2010. Þá eru ummerki um stór sprungugos utan jökuls, t.d. Hólmsáreldar fyrir um 6800 árum.
Á sögulegum tíma er framan af lítið um heimildir, helst minnst á allra stærstu viðburði eins og Eldgjárgosið. Gjóskulagarannsóknir hafa þó opinberað nokkur gos, stærð þeirra og tímatal að nokkru leiti. Gos á sögulegum tíma eru um 20 talsins.
—
Níunda öld , sennilega á bilinu 894-898. Fyrsta Kötlugosið eftir landnám og var þetta gos lítið. Engar heimildir eru til um gosið en tilurð þess er studd með gjóskulagarannsóknum.
—
920 Meðalstórt gos. Engar heimildir til um gosið en gjóska úr því hefur fundist víða á Suður- og Suðvesturlandi, m.a. í Reykjavík.
—
934 Eldgjárgosið. Stærsta eldgos á Íslandi síðan land byggðist. Bæði gaus í jöklinum og utan hans á um 75 km. langri og slitróttri sprungu. Jafnvel talið að gosið hafi staðið í allt að 8 ár. Fjallað er sérstaklega um þetta mikla gos hér.
—
Eftir Eldgjárgosið virðist Katla hafa tekið sér nokkuð langt hlé
11. öld – Ártal óvíst. Lítið gos sem hefur skilað gjósku til austurs.
—
1179 Fremur lítið gos en hlaupið olli þó miklu tjóni er það tók af marga bæi í landi Höfðabrekku.
—
1245 Lítið gos. Í heimildum er talað um að þetta gos hafi verið í Sólheimajökli en hann gengur suður af Mýrdalsjökli. “Sandur lá fjórðung álnar djúpur á engjum” segir í heimildum.
—
1262 Allmikið gos, sennilega af svipaðri stærð og gosið 1918. Mesta gos Kötlu í um 330 ár, allt frá Eldgjárgosinu. Annálar segja að myrkur hafi verið svo mikið að það hafi hulið sólu. Gjóskufall var talsvert og mældist um 10cm í 30 km fjarlægð frá eldstöðinni.
—
1357 Það liðu 95 ár frá síðasta gosi að þessu gosi sem telst meðalstórt. Verulegt tjón varð vegna gjóskufalls í Mýrdal.
—
1416 Meðalstórt gos sem sagt er að hafi brennt mikinn dal í jökulinn. Jökulhlaupið var kallað Höfðahlaup og hefur líklega verið með stefnu á Hjörleifshöfða.
—
1440 varð fremur lítið gos og er þess ekki getið í heimildum. Gjóska barst til norðurs og féll ekki í byggð að því að talið er.
—
15.öld ártal óvisst en eftir 1440. Lítið gos sem hvergi er getið í heimildum.
—
1500 Allstórt gos og barst gjóska til vesturs yfir Suðurlandsundirlendið og út á Reykjanesskaga. Líklegt er að bæði gjóska og hlaup hafi valdið tjóni þó þess sé ekki getið í heimildum.
—
1580 Fyrsta Kötlugosið sem nokkuð góðar heimildir eru um þó það hafi verið fremur lítið. Það hófst 11.ágúst. Hlaupið tók af bæ en fólk sakaði ekki. Dunur og dynkir munu hafa heyrst alla leið til Hafnarfjarðar.
—
1612 Þann 12. Október hófst lítið gos sem ekki er talið að hafi valdið tjóni
—
1625 Allstórt Kötlugos sem hófst af morgni 2. september. Þorsteinn Magnússon, þá sýslumaður í Þykkvabæ ritaði ítarlega frásögn um þetta gos sem hefur varðveist. Til að byrja með fundust jarðskjálftakippir, vægir í fyrstu. Skömmu síðar heyrast miklar drunur og sprakk jökullinn fram í fyrsta sinn í þessu gosi. Hlaupið olli tjóni í Þykkvabæ. Mikil gjóska féll svo nóttina eftir og næstu sólarhringa. Gosið stóð aðeins í 12 daga. 18 bæir fóru í eyði í Skaftártungu í kjölfar gossins.
—
1660 Meðalstórt gos sem hófst þann 3. nóvember. Þetta gos olli talsverðu tjóni, hlaupið sópaði burt mannvirkjum, þar á meðal kirkju á Höfðabrekku. Að auki tók hlaupið fjóra aðra bæi en ekki varð manntjón. Þá olli gjóska frá gosinu víða búsifjum. Gos þetta mun hafa staðið í um tvo mánuði.
—
1721 Þann 11.maí hófst nokkuð stórt gos í Kötlu. Snemma um morguninn fundust harðir jarðskjálftakippir í Mýrdal og nágrenni. Vart var við gosið upp úr hádegi og skömmu síðar ruddist mikið hlaup yfir allan Mýrdalssand. Þegar hlaupið kom fram í sjó olli það sjávarflóðum með ströndinni allt til Grindavíkur og tók af bæði skip og hjalla. Þá tók hlaupið af bæinn Hjörleifshöfða. Gjóskufall var einnig talsvert og í Saurbæ í Hvalfirði varð að kveikja ljós um hádegisbil. Þann 16.maí barst gjóskan til norðurs svo sporrækt varð í Eyjafirði. Gosið hélst fram á haust en mjög dró úr því eftir fyrstu vikuna.
—
1755 Þann 17. október hófst stærsta Kötlugos frá Eldgjárgosinu eða í rúm 800 ár. Eins og oftast urðu harðir jarðskjálftakippir á undan gosinu. Gjóskufall var aðallega til austurs og olli miklu tjóni í Álftaveri, Skaftártungum og víðar. Mikið hlaup fylgdi gosinu en þó varð tjón af völdum þess minna en í gosinu 1721. Miklar eldingar fylgdu gosinu og urðu tveim manneskjum að bana. Þessu gosi fylgdi mjög harður vetur, slæmt vor og hafísar svo að í héröðum sem gjóska féll og víðar varð almennur fellir og hallæri.
—
1823 Að kvöldi 26. júní hófst fremur lítið gos í Kötlu. Hlaupin, sem voru allnokkur þó gosið væri lítið, ollu nokkru tjóni í Álftaveri. Gosið stóð í tæpan mánuð og olli þó minni skaða en stóru gosin á undan.
—
1860 Þann 8. maí hófst fremur lítið gos í Kötlu. Sem fyrr hófst það með hörðum jarðskjálftakippum sem fundust í sveitunum nærri eldstöðinni. Hlaupin sem fylgdu gosinu tóku af engi og haga á bæjum í Álftaveri. Gjóska féll aðeins að litlu leiti í byggð. Gosið stóð í tæpar þrjár vikur.
—
1918 Þetta síðasta staðfesta Kötlugos var með stærri gosum í eldstöðinni og í fyrsta sinn eru teknar myndir af Kötlugosi. Hlaupið var eitt það mesta frá landnámi. Gosið hófst þann 12. október og stóð í 24 daga. Gjóska féll víða um land. Hross og sauðfé fórust í hlaupum sem fylgdu gosinu og tjón varð á gróðurlendi í Álftaveri.
—
1955 – 1999 -2011 Þessi ár urðu líklega smágos í Kötluöskjunni sem náðu ekki að bræða sig í gegnum ísinn en minni háttar jökulhlaup urðu. Slíkt kann oft að hafa gerst áður án þess að menn yrðu þess varir.
—
Helstu heimildir sem stuðst var við :
Náttúruvá á Íslandi, Viðlagatrygging Íslands / Háskólaútgáfan 2013 aðalritstjóri Júlíus Sólnes
Íslenskar Eldstöðvar, Vaka Helgafell 2001. Ari Trausti Guðmundsson
Landskjálftar á Íslandi, Hið Íslenzka Bókmenntafélag 1905 Þorvaldur Thoroddsen