Month: mars 2020

Harður jarðskjálfti við Reykjanestá – Landris hafið aftur við Svartsengi

Upptök jarðskjálfta á Reykjanesi síðasta sólarhring.
Upptök jarðskjálfta á Reykjanesi síðasta sólarhring.

Snarpur jarðskjálfti M4,2 varð kl. 10:32 í morgun nokkra kílómetra norðvestan við Reykjanestá.  Fjölmargir eftirskjálftar hafa mæst og virkni er stöðug.  Enginn gosórói er sjáanlegur.  Þá er einnig virkni á svæðinu norðan og norðaustan við Grindavík og talið er að landris sé hafið aftur við Svartsengi.

Hvorutveggja er framhald á mikilli jarðsjálftavirkni og landrisi sem hefur verið í gangi nú meira og minna í tvo mánuði þrátt fyrir rólegar vikur inn á milli.  Telja verður sífellt líklegra að það sé að hefjast rek-og gliðnunarhrina á Reykjanesskaganum enda hrinan orðin ansi þrálát.

Þó er rétt að geta þess að til er sú kenning að orsök landrisins sé niðurdæling affallsvatns frá orkuverinu í Svartsengi.  Rökin fyrir því eru vissulega til staðar, þ.e. að landrisið á sér stað nákvæmlega á þeim stað þar sem niðurdælingin fer fram og jarðskjálftavirknin er nær engin akkúrat á því svæði, heldur nokkuð austan og vestan við svæðið sem rís.  Jarðfræðingar virðast þó almennt þeirrar skoðunar að kvikusöfnin sé skýringin á landrisinu og aflögunin valdi jarðskjálftum í jaðri þess svæðis.

Það er þó erfitt að sjá hvernig niðurdælingin geti tengst atburðunum við Reykjanestá sem er um 10-15 km vestar.

SKJÁLFTI M 5,2 SKAMMT FRÁ GRINDAVÍK

Upptök skjálftanna í morgun. Ath að vegna fjölda skjálfta þá er staðsetningin ekki endilega nákvæm.  Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Upptök skjálftanna í morgun. Ath að vegna fjölda skjálfta þá er staðsetningin ekki endilega nákvæm. Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Mjög snarpur jarðskjálfti varð um 4,9 km norðaustan við Grindavík kl.10 25 í morgun.  Skjálftinn fannst um allt suðvestanvert landið og gott betur en það reyndar.  Skjálftinn varð á um 6,1 km dýpi.  Eftirskjálftavirkni er stöðug og mikil.

Tiltölulega rólegt hafði verið á Grindavíkursvæðinu síðustu tvær vikurnar og meginhluti skjálftavirkninnar sem fylgdi landrisinu hafði fært sig vestar í átt að Reykjanestá, en þar var einnig orðið rólegra.  Landrisið virðist einnig hafa hætt og líklega er þessi skjálfti afleiðing af landrisinu, þ.e. svæðið er að aðlagast breytingunum sem fylgja því.  Hinsvegar þegar svona stórir skjálfta verða á eldvirkum svæðum þá geta þeir sem slíkir líka valdið aflögun og breytingum og jafnvel opnað fyrir kvikuuppstreymi og eldgos í kjölfarið.

Á þeim stað sem skjálftinn varð væri þó líklega hagstæðast að fá eldgos ef út í það er farið.  Grindavík yrði tæplega ógnað og ekki heldur mannvirkjum við Bláa lónið, amk. ekki í minniháttar gosi sem er langlíklegast að yrði.

Ekkert bendir þó enn til að gos sé í aðsigi en fyrirvarinn gæti reyndar orðið mjög stuttur.

 

Scroll to Top