Krakatá (Krakatoa) er eyja á milli tveggja stærstu eyja Indónesíu, Súmötru og Jövu. Eldgos hófst á Krakatá í maí 1883 og fram í ágúst sama ár gaus kröftuglega með hléum. Jarðskjálftar og höggbylgjur frá gosinu riðu yfir nágrennið. Þann 26. ágúst herti gosið mjög og náði gosmökkurinn 25 km hæð með tilheyrandi öskufalli í Indónesíu.
Morguninn eftir, þann 27. ágúst kváðu við fjórar gríðarlegar sprengingar og eyjan Krakatá hreinlega splundraðist. Svo mikill var krafturinn í sprengingunum að þær heyrðust til borgarinnar Perth í Ástralíu sem er í 3.100 km. fjarlægð. Risavaxnar flóðbylgjur (tsunami) sem náðu allt að 40 metra hæð skullu á eyjunum í kring og urðu amk. 36.000 manns að bana.
Þetta er eitt af allra mestu eldgosum sem mannkynið hefur orðið vitni að. Árið eftir kólnaði veðurfar um allan heim vegna ösku í háloftunum og varð ekki eðlilegt fyrr en 5 árum síðar.
Eyjan Krakatá minnkaði mikið og breyttist í kjölfar gossins, askja myndaðist sem er um 300 metra djúp og um 6km í þvermál. Eyja myndaðist í öskjunni í gosi árið 1930 sem nefnd var Anak Krakatoa eða barn Krakatá og hefur gosið af og til síðan.