Jarðskjálftahrina hófst við suðvesturenda Langjökuls í morgun. Um 20 skjálftar höfðu mælst um hádegið, sá stærsti M 3,1 og fannst
vel. Ferðaþjónustufyrirtæki eru með starfsemi á þessum slóðum og fann fólk á þeirra vegum fyrir stærstu skjálftunum. Líklegt er að þeir hafi einnig fundist í Húsafelli sem er ekki langt frá, eða um 12-13 km.
Skjálftarnir eru flestir fremur grunnir á 2-5 km dýpi. Algengt er að skjálftahrinur verði við Langjökul, einkum við vesturbrún hans. Tvö eldstöðvakerfi eru talin vera í jöklinum, annað norðantil í honum og hitt sunnantil. Þessir skjálftar eru í útjaðri þess kerfis. Hrina varð á svipuðum slóðum í júní 2011 en þó heldur sunnar.
Ekki hefur gosið í eldstöðvakerfum Langjökuls síðan árið 900 þegar Hallmundarhraun rann alla leið til byggða í Hvítársíðu um 50 km leið frá norðvesturbrún Langjökuls. Öfugt við litla gosvirkni er jarðskjálftavirknin allmikil við jökulinn.