Skjálftahrinan sem gengið hefur yfir við Krísuvík og á Sveifluhálsi undanfarna daga færðist mjög i aukana í morgun með amk. þrem skjálftum vel yfir 3 á Richter, sá sterkasti 3,7 og fannst vel á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er í raun framhald af hrinu sem segja má að hafi verið í gangi í tvö ár og gengur í lotum. Sjá umfjöllun hér. Þá bendum við á umfjöllun um eldstöðvar á Reykjanesskaga hér.
Skjálftar á þessu svæði eru mjög algengir og þurfa ekki að boða nein frekari tíðindi. Hinsvegar hefur átt sér stað landris á svæðinu undanfarin ár sem ekki hefur verið fyllilega útskýrt. Eldgos hafa orðið á þessu svæði síðan land byggðist og ganga yfir i hrinum. Síðast gekk hrina eldgosa yfir á Reykjanesskaga á 12. og 13. öld. en einnig eru heimildir um gos á 15. öld. Mun styttra er síðan gosið hefur í sjó skammt undan Reykjanesi, eða á 19. öld.
Svæðið sem nú skelfur tilheyrir Trölladyngjukerfinu. Árin 1150-1151 urðu allmikil eldsumbrot á þessu svæði og opnuðust nokkrar gossprungur.
Meðfylgjandi mynd er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir jarðskjálfta síðustu 48 stundir, þeir nýjustu eru rauðir, þeir stærstu eru grænar stjörnur.
UPPFÆRT: Annar stór skjálfti varð kl. 17.27 í dag. Upptökin á svipuðum stað og fyrri skjálftar eða tæpa 5 km. NNA af Krísuvík. Mikilll fjöldi smærri eftirskjálfta hafa fylgt í kjölfarið.