Fullvíst er nú talið að hlaup hafi hafist úr Grímsvötnum í Vatnajökli á fimmtudaginn. Mun það ná hámarki á 4-5 dögum. Síðastliðna nótt mældist jarðskjálfti um 3 á Richter undir Grímsfjalli sem er við vötnin. Hlaup nú kemur engum á óvart, vitað var að vatnsborðið var orðið mjög hátt í vötnunum. Skv. frétt á mbl.is leitar hlaupið nú í Gígjukvísl en ekki í Skeiðará eins og venjan er og er ástæðan breytingar sem orðið hafa við jökulsporðinn í kjölfar þess að jökullinn hefur hopað undanfarin ár. Raunar er farvegur Skeiðarár alveg þurr um þessar mundir.
Á meðfylgjandi korti sem fengið er héðan sést leið vatns frá Grímsvötnum og einnig eru helstu megineldstöðvar í Vatnajökli merktar inn á kortið.
Það er einstakt en nokkuð flókið ferli sem á sér stað og veldur hlaupum úr Grímsvötnum. Er það útskýrt á síðu okkar um Grímsvötn. Nokkuð miklar líkur verður að telja á því að lítið eldgos verði í Grímsvatnaöskjunni þegar líður á hlaupið. Svo snögg þrýstingsbreyting sem verður þegar fargið fer snögglega af kvikuhólfinu veldur þessum gosum sem eru alvanaleg í kjölfar Grímsvatnahlaupa en þó er það ekki alltaf svo að gos verði. Síðast gaus í Grímsvötnum árið 2004 en einnig árin 1996 og 1998. Gosið 1996 var nokkuð öflugt eins og menn muna en það var heldur ekki af völdum hlaups úr Grímsvötnum, heldur varð það af völdum hræringa í nálægri eldstöð, Bárðarbungu, en það eldgos olli hinsvegar gríðarstóru hlaupi úr Grímsvötnum. Svo mikið hlaup og kröftugt gos er ekki í aðsigi núna.
Kannski bara betra að hlaupið starti gosinu fremur enn öfugt,,Frestist gosið um ár eða tvö má fremur búast við hamfarahlaupi,,Annars,, nota bene,, voru einhverjir fáséðir kippir í námunda við Esjufjöll um daginn,,hvað táknar það,,
Það eru aðstæður hverju sinni sem ráða stærð hlaupsins. Íshellan yfir vötnunum lyftist þegar ákveðið vatnsmagn er komið í þau, þykkt íssins ræður m.a. hvað mikið magn þarf til að koma af stað hlaupi ofl. Hamfarahlaup eins og 1996 verða ekki nema nokkuð stórt eldgos komi því af stað.
Fréttir um kippina í Esjufjöllum má sjá hér http://www.eldgos.is/archives/573