Viðvarandi spenna á Krýsuvíkursvæðinu – Gæti endað með gosi

Birta á :

Á mbl.is í dag er að finna fróðlegt viðtal við Ara Trausta Guðmundsson jarðfræðing.  Þar kemur fram að spenna hefur byggst upp undanfarin ár við suðurenda Kleifarvatns og á Sveifluhálsi og er ástandið viðvarandi.  Landris hefur mælst á þessum slóðum og þó þess sé ekki getið í viðtalinu þá má leiða líkum að því að það stafi af kvikusöfnun neðanjarðar.  Á síðasta ári urðu auk skjálfta á Krísuvíkursvæðinu, skjálftar við Grindavík og öflug hrina á Bláfjallasvæðinu.  Nú í janúar varð svo allsnarpur skjálfti við Keili.

Eins og fram kemur í viðtalinu við Ara Trausta þá verða goshrinur á Reykjanesskaganum á ca 500-1000 ára fresti.  Síðustu staðfestu gos á svæðinu urðu um árið 1240 og því eru rúm 770 ár liðin frá því Reykjanesskaginn lét síðast að sér kveða.  Þrátt fyrir þennan óróa á skaganum undanfarin ár þá gætu enn liðið margir áratugir, jafnvel aldir áður en goshrina hefst því eldstöðvar geta verið mjög lengi að undirbúa gos.  Órói hófst í Eyjafjallajökli um 15 árum fyrir gosið, Bárðarbunga hefur verið óróleg í 40 ár og Katla er með reglulega tilburði án þess að til goss komi svo dæmi séu tekin.  En vegna nálægðar eldstöðva á Reykjanesskaga við þéttbýlasta svæði landsins er nauðsynlegt að rannsaka eldstöðvarnar mjög vel og hafa fullunna viðbragðsáætlun til staðar svo eldgos komi fólki ekki í opna skjöldu þegar og ef til þess kemur.

Meðfylgjandi mynd er tekin við hverasvæðið í Krýsuvík sem er mjög virkt.

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

Scroll to Top