Snörp og óvenjuleg jarðskjálftahrina varð í norðvestanverðri Bárðarbunguöskjunni milli kl 6 og 9 í morgun. Virknin var mjög þétt og minnti á undanfara Holuhraunsgossins árið 2014. Skjálftarnir voru flestir á um 4-8 km dýpi. Það bendir flest til þess að um kvikuhreyfingar í kvikuhólfi undir eldfjallinu hafi verið að ræða. Mögulega kvikuskot útúr hólfinu. Virknin stöðvaðist snögglega um kl. 9. Stærstu skjálftarnir voru um M 4,9 og allmargir yfir M 3.
Eldstöðin hefur verið að safna í sig kviku allt frá Holuhraunsgosinu, það er vitað en þó er erfitt að áætla hver mikið magn af kviku er að ræða. Landris hefur mælst i nágrenni Bárðarbungu en þar sem eldstöðin er hulin jökli þá er ekki hlaupið að þvi að mæla hæðarbreytingar líkt og gert er á Reykjanesskaganum.
Af og til hafa orðið nokkuð stórir stakir skjálftar í Bárðarbungu frá goslokum sem taldir eru tengjast kvikusöfnun. Þeim hefur hinsvegar ekki fylgt nein eftirvirkni líkt og gerðist í morgun.
Líta verður á þennan atburð sem merki um að þrýstingur undir eldstöðinni sé orðinn mjög mikill og að það styttist í eldgos.
HVERNIG ELDGOS ER LÍKLEGAST Í BÁRÐARBUNGU?
Bárðarbunga er nokkuð sérstök eldstöð að því leiti að langoftast leitar kvikan út í sprungusveim eldstöðvarinnar í stað þess koma upp nær miðju kerfisins. Gos í Dyngjujökli norðaustur af Bárðarbungu hafa verið nokkuð tíð á köflum á sögulegum tíma, einkum á 13.-14. öld og svo aftur á þeirri 18. en menn sjaldnast orðið varir við þau enda víðsfjarri allri byggð. Heimildir eru helstar um hlaup í Jökulsá á Fjöllum sem væntanlega tengjast þessum gosum. Gjóskulagarannsóknir hafa einnig sýnt fram á tilurð þeirra.
Af og til hafa hinsvegar orðið mjög stór gos Bárðarbungukerfinu. Stærstu gosin frá landnámi eru Vatnaöldugosið um 870 og Veiðivatnagosið um 1480. Þau eiga það sameiginlegt að kvikan hefur hlaupið alllangt til suðvesturs frá Bárðarbungu áður en hún hefur brotist upp á yfirborðið. Þetta er tvímælalaust hættulegasta sviðsmyndin vegna innviða á þessu svæði t.d. fjölmargar virkjanir, en þó verður að telja líklegt að Holuhraunsgosið árið 2014 minnki verulega líkurnar á slíkum atburði í bráð enda virðist kvikan eiga greiðari leið til norðausturs eftir þeim sprungusveim. Á jökullausa hluta Dyngjuhálsins (t.d. Holuhraun) gera stór eldgos engan skaða.
Það er fylgst vel með Bárðarbungu og full ástæða til þess að gera það enda líklega öflugasta eldstöð landsins.