Kl. 20:17 í Kvöld fannst skjálfti M 4,1 á höfuðborgarsvæðinu og eru upptökin um 6km suður af Bláfjallaskála. Skjálftinn hefur væntanlega fundist í Hveragerði, Selfossi og suður með sjó. Nokkuð margir smáskjálftar hafa mælst eftir stóra skjálftann en flestir undir M 1.
Skjálftar á þessu svæði koma ekkert sérstaklega á óvart, eru algengir án þess að þeir boði nokkuð meira. Síðast varð á þessum slóðum stór skjálfti um M 5,0 17.Júní árið 2000, sama dag og stóri Suðurlandsskjálftinn reið yfir og var í raun hluti af þeirri hrinu.
Þarna hefur ekki orðið eldgos í um 1000 ár. Þegar goshrinur ganga yfir Reykjanesskaga þá hefjast þær yfirleitt austast á skaganum (í grennd við Bláfjöll) og færast svo í vesturátt. Síðasta goshrina hófst þarna um árið 1000 (Kristnitökuhraunið) og lauk um árið 1240 með gosum vestast á skaganum.