Katla skelfur

Birta á :
Upptök og stærð jarðskjálfta í Mýrdalsjökli í morgun. Heimild: Veðurstofa Íslands

Öflug jarðskjálftahrina hófst í Mýrdalsjökli um kl 10:30 i morgun.  Stærsti skjálftinn hingað til mældist M 4,5 og nokkrir yfir M 3.  Skjálftarnir virðast vera á 1-5 km dýpi.  Virknin er í norðaustanverðri öskjunni, nálægt þekktum jarðhitasvæðum.

Þetta gæti verið hreyfing í kvikuhólfinu, jarðhitavirkni eða hvorutveggja.  Ekkert bendir ennþá til þess að eldgos sé yfirvofandi, enda skjálftahrinur í Kötlu nokkuð algengar síðsumars og á haustin.  Þó eru tvö ár síðan svona stórir skjálftar hafa riðið yfir í Kötlu.

Langlíklegast er að hrinan fjari út á næstu klukkutímum eða sólarhringum.

Katla hefur ekki gosið svo staðfest sé síðan 1918 þó grunur leiki um nokkur smágos sem hafi ekki náð uppúr jöklinum, enda er hann um 800 metra þykkur yfir öskjunni.

Scroll to Top