Eldgosinu norðan við Stóra-Skógfell lauk síðastliðna nótt. Dregið hafði nokkuð hratt úr krafti þess síðustu sólarhringa og ljóst í hvað stefndi. Gosið stóð yfir í um 13 sólarhringa. Um leið virðist landris hafa hafist enn á ný undir Svartsengi. Ekki er að svo stöddu hægt að segja til um hvort það sé álíka mikið og fyrir síðustu gos, líklega nokkrir dagar í það að hægt verði að meta hraða þess.
Hvert gosanna á Sundhnúkagígaröðinni hefur sitt sérkenni og að þessu sinni kom á óvart hve norðarlega gosið kom upp. Staðsetningin var vissulega heppileg hvað varðar Grindavík og Svartsengi en ef virknin heldur áfram að færast norður eða norðaustur í næsta gosi, ef af því verður, þá er ástæða til að hafa áhyggjur af Reykjanesbrautinni og jafnvel Vogum. Það verður eflaust umræða um það á næstu vikum hvort ástæða sé til þess að hefja byggingu varnargarða á þessum slóðum.
Er líklegt að það gjósi norðar ? Í rauninni varla. Vissulega nær sprungusveimu Svartsengissvæðisins lengra í norður en gossprungur hinsvegar aðeins að takmörkuðu leiti. Lítil gömul gossprunga er nokkuð norðaustur af síðustu gosstöðvum en varla nógu norðarlega til að ógna Reykjanesbrautinni. Í jarðfræðilegum skilningi er þó ekki hægt að útiloka þessar vendingar frekar en margar aðrar í þessum efnum.
Þetta var 6. eldgosið á Sundhnúkagígaröðnni síðan í desember og ekkert sem bendir til þess að þessum atburðum sé að ljúka. Ef fram heldur sem horfir þá má reikna með enn einum atburði seint í nóvember eða snemma í desember. Þá gætum við fengið enn eitt gosið sem er stærra og öflugra en gosið á undan. Staðsetningin nær örugglega á Sundhnúkasprungunni en algjörlega óvist hvar.