Eldgosið var lítið en atburðurinn stór

Birta á :
GPS graf á vef Veðurstofunnar frá stöðinni við Svartsengi sýnir svo ekki sé um vilst að landris er hafið enn á ný. Neðsta myndin sýnir landris en hinar hliðarfærslur.

Eldgosið sem hófst 1.Apríl síðastliðinn stóð aðeins yfir í örfáar klukkustundir og var í raun bara “leki” úr stóru kvikuinnskoti sem myndaði allt að 20 kílómetra langan kvikugang frá Grindavík og langleiðina að Keili.  Þetta var langlengsti kvikugangurinn sem myndast hefur síðan þessi umbrot öll hófust.

Það kom vísindamönnum á óvart að kvika næði ekki til yfirborðs á hefðbundnum slóðum því kvikumagnið sem fór á hreyfingu var það mesta síðan 10. Nóvember 2023 þegar stóri kvikugangurinn myndaðist undir Grindavík.  Hversvegna þetta gerðist með þessum hætti er ekki ljóst.  Þá var meira rúm fyrir kviku neðanjarðar í sprungusveimnum en reiknað hafði verið með.

Veruleg jarðskjálftavirkni hefur fylgt þessum umbrotum og skýrist af myndun kvikugangsins.  Bergið í kringum ganginn aflagast og spenna byggist upp og losnar í skjálftum jafnvel allfjarri kvikuganginum eins og stórir skjálftar við Reykjanestá sýna.  Þetta hafa fræðingar kallað hinu frekar óþjála orði “gikkskjálftar”.

Landris er greinilega hafið á ný og virðist nokkuð hratt.  Það er því fátt sem bendir til þess þessum umbrotum sé lokið því miður.  Það má því búast við enn einu kvikuhlaupi eða eldgosi síðsumars, ca Júlí – Ágúst.  Þar sem þessi atburður sem hófst 1.Apríl hagar sér öðruvísi en undanfarnir atburðir sem flestir enduðu með eldgosum á miðbik Sundhnúkagígaraðarinnar, þá er erfitt að segja til um hvað kvikan gerir næst.  Mögulega á hún orðið erfiðara með að komast upp við Sundhnúk og gæti leitað annað, t.d. í Eldvörp.  Það er allavega enn mikil óvissa um lok þessara Svartsengiselda.

Scroll to Top