Eldgosið að fjara út – Landris hafið á ný

Birta á :
Gögn frá Veðurstofu Íslands sem sýna GPS færslur á mælistöðinni í Skipastígshrauni.

Gosið sem hófst á Sundhnúkagígaröðinni þann 20. nóvember er í andaslitrunum að því er virðist.  Eftir nokkuð kröftuga byrjun datt virknin niður eftir nokkra daga en hélst svo síðustu vikuna nær óbreytt þar til í nótt.  Nú er ekki að sjá að hraun renni lengur frá gígnum, þeim eina sem hefur verið virkur síðustu vikuna.

Veðurstofa Íslands hefur tilkynnt að nýjustu aflögunargögn bendi til þess að landris sé hafið á ný.  Ekki er tekið fram hversu hratt það er en það ætti að skýrast fljótlega eftir að gosinu lýkur sem flest bendir til þess að sé á allra næstu dögum.  Ef eitthvað hefur dregið úr innflæði í grynnra kvikuhólfið þá er það sennilega mjög lítið.  Það má því reikna með nýjum viðburði innan þriggja mánaða, jafnvel fyrr.  Allavega er ljóst að þessum atburðum er hvergi nærri lokið.

Meðfylgjandi mynd sýnir GPS grafið fyrir Skipastígshraun sem staðsett er rétt vestan við miðju kvikuhólfsins.  Á neðstu myndinni sést vel að landris er þegar hafið.  Það er einnig athyglisvert að land seig ekki jafn mikið og í fyrri gosum sem gæti þýtt að styttra er í næsta viðburð en ella, því land þarf ekki að rísa eins mikið til að ná sömu hæð á ný og fyrir þetta gos.  Það fer þó allt eftir hraða landrissins á næstu vikum.

Það hefur verið nokkur umræða um að það sé farið að sjá fyrir endann á þessari goshrinu.  Innstreymi kviku úr neðra kvikuhólfinu í það efra hefur eitthvað hægt á sér en alls ekki mikið, hefur raunar verið því sem næst stöðugt frá því í maí.  Jarðfræðingar hafa bent á að nú virðist álíka mikið magn af kviku hafa náð yfirborði og í upphafi síðustu goshrinu fyrir um 1200 árum.  Sú hrina varð reyndar í Krýsuvíkurkerfinu.  Síðar á því eldgosaskeiði varð goshrina í Eldvörpum og vestast á Reykjanesskaganum sem náði út fyrir ströndina.  Sú hrina stóð yfir í um 30 ár og vantar líklega enn talsvert uppá að kvikumagni þeirrar hrinu sé náð núna.  Að mínu mati á þessi hrina meira skilt með þeirri hrinu en þeirri sem varð í Krýsuvík á 9. öld.  

Þá er einnig óvissuþáttur fólginn í hve auðvelt kvikan á með að komast úr neðra kvikuhólfinu (sem er gríðarlega stórt) í það efra og þaðan til yfirborðs. Í fyrri hrinum síðustu 3000 árin hefur kvikan staldrað mikið lengur við í efri kvikuhólfum áður en hún nær yfirborði.  Þetta gæti skýrt hve tíð gosin eru og hve mikið magn kviku er að ná yfirborði á stuttum tíma.   

Þetta gæti þýtt tvennt:  Annarsvegar að hrinan ljúki sér af mikið fyrr en aðrar hrinur sem staðið hafa yfir í áratugi og skili ekki mikið meira magni af kviku til yfirborðs en orðið er.   –  Hinsvegar að vegna þess hve auðvelt kvikan á með að ná yfirborði þá muni í heildina koma talsvert eða miklu meira magn kviku til yfirborðs en í sambærilegum hrinum síðustu árþúsundin.  Þetta gæti þýtt að enn séu mörg ár eftir af þessari atburðarrás en virknin gæti hlaupið á milli kerfa og þá líklegast út í Eldvörp eða út á Reykjanestá.  

Scroll to Top