ELDGOS HÓFST KL. 21:26 Í SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI EFTIR STUTTA EN SNARPA JARÐSKJÁLFTAHRINU. GOSIÐ ER NOKKUÐ NORÐAR EN FYRRI GOS EN MJÖG KRAFTMIKIÐ Í UPPHAFI. INNVIÐIR VIRÐAST ENN SEM KOMIÐ ER EKKI Í MIKILLI HÆTTU. HELST ERU ÁHYGGJUR AF KALDAVATNSLÖGN Í SVARTSENGI EN ÞÓ ER TALSVERT Í AÐ HRAUNIÐ NÁI HENNI. STAÐSETNINGIN Á ÞESSU GOSI ER MUN HAGSTÆÐARI EN ÁÐUR MEÐ TILLITI TIL INNVIÐA.
Þetta er 6. eldgosið í þessari hrinu sem hófst í Svartsengi í desember. Gosin hafa farið stækkandi og gossprungan er um 4 kílómetra löng. Meginkrafturinn er norðan við Stóra – Skógfell og hraun rennur í átt að Grindarvíkurvegi á tveimur stöðum. Það var komið mun meira magn af kviku í kvikuhólfið undir Svartsengi nú en fyrir fyrri gos , eða nálægt 25 milljón rúmmetrar. Því var óttast að þetta gos yrði mjög öflugt í upphafi. Það er vissulega öflugt , hraunrennsli líklega um 2000 rúmmetrar á sekúndu, en það er svipað og í gosinu sem hófst í Maí síðastliðnum.
Þetta gos er enn einn kaflinn sem í raun hófst haustið 2020 með landrisi í Svartsengi. Mikil jarðskjálftahrina og svo eldgosið við Fagradalsfjall hófst svo snemma árs 2021 og síðan hefur hver atburðurinn rekið annan. Færsla virkninnar frá Fagradalsfjalli í Svartsengi síðastliði haust gjörbreytti stöðunni og alvarleika þessara atburða. Lengra virðist þó orðið á milli gosanna en þau fara hinsvegar stækkandi. Þetta gos mun líklega malla í einhverjar vikur og þá má reikna með að ferlið endurtaki sig eftir einhverja mánuði.