- ÖFLUG JARÐSKJÁLFTAHRINA HÓFST Á SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI UM KL. 6 30 Í MORGUN ER KVIKUHLAUP HÓFST.
- ELDGÓS HÓFST Á 10. TÍMANUM EN ER ENN SEM KOMIÐ ER LÍTIÐ EN STAÐSETNINGIN HÆTTULEG.
- MIKIL KVIKA Á FERÐINNI SEM LEITAR NORÐUR EFTIR SUNDHNÚKAGÍGARÖÐINNI OG GÆTI BROTIST ÞAR UPP.

Þrátt fyrir að eldgos sé hafið þá er mikil óvissa um framhaldið þar sem meiri kvika er á ferðinni en verið hefur í aðdraganda undanfarinna eldgosa. Miðað við jarðskjálftavirkni virðist sem kvikugangurinn sé að teygja sig norðaustur og er kominn þegar þetta er skrifað aðeins fáeina kílómetra frá Reykjanesbrautinni. Ef eldgos verður á þeim slóðum er brautin í hættu.
Þetta eldgos lét bíða óvenjulengi eftir sér, aldrei hefur verið meira kvikumagn í kvikuhólfinu undir Svartsengi og hefur verið búist við gosi í nokkrar vikur. Það er þó greinilega smámsaman að hægja á rennsli í þetta kvikuhólf og verður að telja líklegt að þetta sé síðasta gosið í þessari hrinu. Líklegt, en þarf þó ekki endilega að vera.
Gossprungan nær lítillega inn fyrir varnargarða við Grindavík en þar er virknin þó mjög lítil enn sem komið er. Sprungan er á sömu línu og í gosinu í janúar í fyrra þegar einnig gaus innan varnargarðanna og þrjú hús fóru undir hraun. Hún teygir sig þó ekki eins langt að bænum og virðist sem stendur ekki stórkostleg hætta á ferðum en meðan gýs þá getur þetta breyst án fyrirvara. Mesti krafturinn er í gosinu norðan varnargarðanna þar sem þeir hlifa bænum og stafa ekki hætta frá þeim hluta gossprungunnar að óbreyttu.