ELDGOS HAFIÐ Á SVIPUÐUM SLÓÐUM OG Í ÁGÚST

Birta á :
Eldgosið séð frá Reykjanesbraut skömmu eftir miðnætti, u.þ.b. klukkutíma eftir að hófst.

Eldgos hófst á tólfta tímanum í gærkvöldi á Sundhnúkagígaröðinni.  Svo virðist sem gossprungan sé á nákvæmlega sama stað og í gosinu sem hófst 23. Ágúst.  Gosið er þó að sjá töluvert minna.  Sprungan er um 2,5-3km og kvikustrókar mun lægri en í upphafi síðasta goss.  Þá er gossprungan á hentugum stað með tilliti til innviða og lítur ekki út fyrir að þeir séu í neinni hættu.  Þó er ekki hægt að útiloka að gosið eigi eftir að sækja í sig veðrið en það væri þá heldur ólíkt öðrum gosum í þessari hrinu sem hófst fyrir tæpu ári síðan.  Þetta er 7. Gosið á Sundhnúkagígaröðinni , það 6. á þessu ári og það 10. síðan umbrotin á Reykjanesskaga hófust í byrjun árs árið 2021.

Eldgosið hófst eftir stutta og eiginlega óvenju máttlitla jarðskjálftahrinu en þrýstingsmælar í borholum í Svartsengi sýndu breytingar sem gjarnan verða fyrir gos á svæðinu.  Gosið hófst einnig u.þ.b. 2-4 vikum fyrr en búast hefði mátt við.  Það var klárlega ekki eins mikil kvika sem hafði safnast í kvikuhólfið undir Svartsengi og fyrir gosið í Ágúst og það skýrir væntanlega hversvegna gosið er ekki kröftugra.  Reynslan segir okkur þó að ekkert er hægt að segja til um hve lengi þetta gos lifir, það getur verið frá örfáum dögum upp í allt að tvo mánuði þó það sé varla mjög líklegt.

Síðuhöfundur brá sér útá Reykjanesbraut og tók myndir.  Víst er gosið tignarlegt en miklum mun minna en upphaf gossins í ágúst.

Scroll to Top