Tjörnesbrotabeltið

Skjálftavirkni úti fyrir Norðurlandi

TjörnesbrotabeltiðNokkur virkni hefur verið á Tjörnesbrotabeltinu undanfarna sólarhringa með skjálftum upp undir M 4 af stærð.  Stærsti skjálftinn, M 3.7 varð um 8 km NNV af Gjögurtá aðfaranótt sunnudags en sólarhring áður hafði orðið skjálfti upp á M 3.4 skammt norðaustur af Grímsey.  Tjörnesbrotabeltið er í raun þrjú stór misgengi.  Í þessu tilviki er virknin á tveimur þeirra en það gerist alloft að fleiri en eitt misgengi eru virk samtímis.  Skjálftar eru algengir á þessum slóðum og standa hrinurnar oft vikum saman.  Af og til verða mjög öflugar hrinur á þessum slóðum. Þannig mældust skjálftar vel yfir M 5 árin 2012 og 2013 en síðan hefur verið heldur rólegra á svæðinu.

Meðfylgjandi mynd sem fengin er af vef Veðurstofu Íslands sýnir vel hvernig misgengin á Tjörnesbrotabeltinu liggja og upptöks skálfta þar.  Hringir utan um ártöl segja til um stærstu skjálfta sem orðið hafa á svæðinu en sumir þeirra hafa náð M 7 af stærð t.d. Skagafjarðarskjálftinn árið 1963.

Jarðskjálftahrina í Öxarfirði

Jarðskjálftar í Öxarfirði.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Jarðskjálftar í Öxarfirði. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Undanfarna sólarhringa hefur staðið yfir smáskjálftahrina í Öxarfirði.  Upptakasvæðin eru tvö, annarsvegar um 10-12km VNV af Kópaskeri og svo aftur um 30 km VNV af Kópaskeri, líklega þó á sömu sprungunni á Tjörnesbrotabeltinu.  Fjöldi smáskjálfta er kominn yfir 200 en aðeins einn hefur mælst yfir M3 enn sem komið er.   Hér er um brotaskjálfta að ræða og tengjast ekki kvikuhreyfingum eða eldvirkni.

Stórir skjálftar eru þó alþekktir á þessu svæði, svo vill til að fyrir réttum 40 árum, þann 13.janúar 1976 varð skjálfti á þessum slóðum sem mældist rúmlega M6 og olli miklum skemmdum á Kópaskeri og í nágrenni.

Árin 2012 og 13 urðu öflugar hrinur á Tjörnesbrotabeltinu en þær urðu Eyjafjarðarmegin á beltinu.

Jarðskjálftahrinur á þessum slóðum eiga það til að vera þrálátar og standa jafnvel vikum saman með hléum þannig að þessi hrina gæti vel undið uppá sig.

Kvikuinnskot í Eyjafjarðarál ?

Skjálftar úti fyrir NorðurlandiMargt bendir til þess að kvikuinnskot undir Eyjafjarðarál orsaki mikinn fjölda smáskjálfta sem þar hafa mælst undanfarna daga.  Þessi mikli fjöldi tiltölulega lítilla skjálfta, allir undir M3 af stærð, er óvenjulegur en ætla mætti að stærri skjálftar fylgdu með.  Þeir  hafa hinsvegar ekki orðið.  Skjálftarnir eru ennfremur á nokkuð afmörkuðu svæði og meirihluti þeirra á 10-12 km dýpi sem bendir til kvikuinnskots eins og fram kom í viðtali við jarðeðlisfræðing í hádegisfréttum Rúv í dag.

Öflugar jarðskjálftahrinur hafa orðið undanfarin misseri á brotabeltunum úti fyrir Norðurlandi og er þetta etv. eðlilegt framhald á þeirri virkni.  Innskot í jarðlög á um 10 km. dýpi boðar ekki eldgos, það er amk. mjög ólíklegt.  Staðreyndin er að mikill meirihluti kviku storknar djúpt í jörðu sem innskot án þess að ná nokkurntímann til yfirborðs.  Að sjálfsögðu er þó rétt að fylgjast vel með þessari virkni.

STÓR JARÐSKJÁLFTI ÚTI FYRIR NORÐURLANDI – M 5,3

Um kl. 1 í nótt fannst jarðskjálfti víða á Norðurlandi sem átti upptök um 16km austur af Grímsey.  Skjálftar hafa verið þarna undanfarna daga og þeir stærstu um 3 stig þar til stóri skjálftinn kom nú í nótt en fyrstu mælingar benda til þess að hann hafi verið um 5,3 M af stærð.  Skjálftinn er á Tjörnesbeltinu en þar eru stórir skjálftar vel þekktir.  Skjálftahrinan nú virðist vera á sömu brotalínu og skjálfti sem varð árið 1910 og er talinn hafa verið um 7 stig, þ.e. nyrstu brotalínunni í Tjörnesbeltinu sem teygir sig inn í Öxarfjörð.  Hér má sjá umfjöllun um svæðið eftir jarðskjálftana i september í fyrra.

Fullvíst má telja að eftirskjálftar verða margir næstu sólarhringa en ómögulegt er að segja til um hvort þetta sé stærsti skjálftinn í þessari hrinu.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands. og sýnir skjálftaupptökin í hrinunni.

Fréttir fjölmiðla af skjálftanum í nótt

Pressan.is:  Harður jarðskjálfti austur af Grímsey

mbl.is:  Stór skjálfti austur af Grímsey

Ruv.is:  Snarpur skjálfti fyrir norðan

Uppfært kl. 12:15

Óvissustigi lýst yfir

Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi vegna jarðskjálftanna.  Stóri skjálftinn í gær reyndist vera 5,5 M af stærð.  Eins og búist var við hafa hundruð eftirskjálfta mælst, sá stærsti þeirra varð um kl. 9 í morgun og mældist 4,7.  Einnig mátti búast við því að virknin teygði sig til suðausturs og það virðist einnig vera að gerast.  Á þessu svæði er fjöldi misgengja og sprungna og óvíst hvaða áhrif þessir skjálftar hafa á þau.  Eldvirkni á þessu svæði tengd skjálftunum er afar ólíkleg.

Uppfært 3.apríl kl. 00 30

Enn er mikil virkni á svæðinu og í kvöld urðu skjálftar uppá 4,7 og 4,4 talsvert suðaustan við skjálftaupptökin í gær og er ljóst að misgengið er að brotna upp í átt að Öxarfirði og Kópaskeri.  Líklegt er að sú þróun haldi áfram.

Á neðri myndinni sem tekin er af vef Veðustofunnar um kl. 00 15 sést þessi færsla vel en grænu stjörnurnar tákna skjálfta yfir M 3,0.  Þessi hrina er allsekkert einsdæmi á þessum slóðum, þarna varð öflug hrina árið 2002 með skjálfta yfir 5 M.  Hrinan sem nú er í gangi er þó enn öflugri.

 

 

Jarðskjálftar á ný í Eyjafjarðarál

.

Í nótt varð skjálfti upp á 3,8 stig um 14 km norðvestur af Gjögurtá, eða a svipuðum slóðum og stóri skjálftinn varð í október síðastliðnum.  Það hafa verið viðvarandi smáskjálftar á þessum slóðum síðan en þessi er sá stærsti i langan tíma.  Á annan tug eftirskjálfta hafa mælst.  Stærsti skjálftinn í nótt fannst í byggðarlögum næst upptökunum þ.e. Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og reyndar einnig á Húsavík.

Það er því ljóst að umbrotahrinunni í Eyjafjarðarál er ekki lokið og má búast við að þetta haldi eitthvað áfram.  Hrinan hefur enn sem komið er ekki haft áhrif á Tjörnes brotabeltið en það er það sem menn hafa helst haft áhyggjur af enda geta orðið mjög harðir skjálftar á því svæði.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands

Fréttir í fjölmiðlum af skjálftanum:

Ruv.is – Snarpur jarðskjálfti nyrðra

Mbl.is – Jarðskjálfti undan Gjögurtá

Scroll to Top