Suðurlandsbrotabeltið

Allsnarpur Suðurlandsskjálfti við Vatnafjöll

Um kl. hálf tvö í dag varð jarðskjálfti M 5,2 við Vatnafjöll sem eru skammt suðaustur af Heklu.  Í fyrstu var talið að skjálftinn gæti boðað upphaf Heklugoss en nánari úrvinnsla sýnir að þetta er nokkuð dæmigerður Suðurlandsskjálfti, alls ótengdur eldsumbrotum.  Stórir jarðskjálftar hafa oft áður orðið á þessu svæði, t.d. árið 1987 þegar varð þar skjálftu uppá tæplega M 6 við Vatnafjöll.  Þversprungur Suðurlandsskjálftabeltisins ná yfir á þetta svæði.

Þar sem stutt er liðið frá síðustu Suðurlandsskjálftum (2000 og 2008) þá er ólíklegt að þetta boði fleiri skjálfta annarsstaðar á Suðurlandsundirlendinu.

Hvað Heklu varðar hinsvegar þá er hún búin að vera tilbúin í gos frá árinu 2006.  Það má þó vel vera að hún sé komin í sinn eðlilega fasa eins og hún var á öldum áður, með ca 1-2 gos á öld og þau þá í stærri kantinum.  Sé svo þá geta vel liðið 30 ár eða meira þar til hún gýs næst.  En hvort hún er komin í þann fasa aftur er þó ekki nokkur leið að vita.

Jarðskjálftar af þessari stærðargráðu er þó óþekktir hvað varðar undanfara Heklugoss, venjulega eru þeir miklu vægari.

Snarpir skjálftar á Suðurlandi

Upptök skjálftanna í hrinunni við Selfoss. Myndin er fengin af skjálftavefsjá á vef Veðurstofu Íslands.
Upptök skjálftanna í hrinunni við Selfoss. Myndin er fengin af skjálftavefsjá á vef Veðurstofu Íslands.

Skjálftahrina hófst í gærkvöldi um 6km ANA af Selfossi.  Stærsti skjálftinn mældist M4,1 en nokkrir aðrir eru um og yfir 3.  Hrinan virðist enn í fullum gangi og ekki hægt að útiloka stærri skjálfta.  Þessi hrina virðist vera á afmarkaðri sprungu.  Þar sem tiltölulega stutt er liðið frá sterkum Suðurlandsskjálftum (2000 og 2008) þá eru ekki miklar líkur á að mjög stórum skjálftum á þessu svæði, ekki nema skjálftarnir færi sig í vesturátt. Skjálftar mikið stærri en M4 eru því ólíklegir, nema skjálftamiðjan færist til

Suðurlandsskjálftarnir árin 2000 og 2008 kláruðu sig nefnilega ekki ef svo má segja.  Það vantaði skjálftana vestan Ölfusár en venjulega enda þessar stóru skjálftahrinur á skjálftum á Hellisheiði/Bláfjallasvæðinu.  Ekkert bendir þó til annars en að þessi hrina haldi sig bara á þessu svæði og deyji svo út.

Engar eldstöðvar eru tengdar þessu skjálftasvæði.  Næsta eldstöðvakerfi er Grímsneskerfið (Kerið og tengdir gígar) en það hefur ekki verið nein virkni í því kerfi í þúsundir ára og fátt sem bendir til þess að það breytist í náinni framtíð.

Allsnarpur skjálfti við Árnes í Þjórsárdal

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök jarðskjálfta á Suðurlandi í dag.  Græna stjarnan táknar stóra skjálftann.
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök jarðskjálfta á Suðurlandi í dag. Græna stjarnan táknar stóra skjálftann.

Jarðskjálfti sem mældist M 4,4 varð skammt suðaustur af Árnesi í Þjórsárdal um hádegisbilið í dag.  Skjálftinn fannst víða á Suðurlandi og var nokkuð harður nærri upptökunum.  Þetta er vel þekkt skjálftasvæði og tengist ekki eldvirkni.  Hekla er sú eldstöð sem er næst þessari jarðskjálftasprungu en þó alveg ótengd henni.

Suðurlandsskjálftar eiga yfireitt ekki upptök á þessum slóðum, beltið sem þeir verða oftast á liggur nokkuð sunnar.   Þó varð skjálfti árið 1630 sem talinn er hafa verið um M 7 af stærð líklega á þessari sprungu.   Vel má vera að þarna skjálfi næstu daga en ólíklegt að þeir skjálftar verði  öflugri en sá sem varð í dag, þó aldrei sé hægt að útiloka að um forskjálfta að stærri skjálfta sé að ræða.

Skjálfti upp á M 4 við Hestfjall

Hestfjall í Grímsnesi. Mynd: Kersti Nebelsiek
Hestfjall í Grímsnesi.
Mynd: Kersti Nebelsiek

Allsnarpur jarðskjálfti varð kl. 23 14 í gærkvöldi við Hestfjall í Grímsnesi.  Þetta er þekkt skjálftasvæði þar sem Suðurlandsskjálftar hafa stundum átt upptök og var þarna t.d. gríðarlega öflugur skjálfti á þessari sprungu árið 1784 um 7 af stærð.  Einn af Suðurlandsskjálftunum árið 2000 átti upptök á svipuðu slóðum og verður að teljast líklegt að þetta sé eftirskjálfti eftir þá atburði.  Vegna þess hve skammt er liðið frá síðustu Suðurlandsskjálftum eru tæplega líkur á mikið stærri skjálftum en þetta á þessum slóðum.  Hinsvegar voru vísbendingar um að enn væri einhver spenna á svæðinu eftir skjálftana 2000 og 2008 og í því ljósi kemur skjálfti af þessari stærð ekki á óvart.

 

Scroll to Top