Landris og jarðskjálftar við Krísuvík
Hrina smáskjálfta hófst við vesturenda Kleifarvatns síðastliðna nótt þ.e. rétt við Krísuvík. Fram kemur á vísi.is að landris hafi hafist á þessu svæði í fyrra en gengið svo til baka. Síðastliðið vor hófst landrisið svo aftur og er talið stafa annaðhvort af völdum kvikuinnstreymis eða þrýstingsbreytingum á jarðhitasvæðum á þessum slóðum.
Meðfylgjandi kort sem er fengið af vefsvæði Veðurstofunnar sýnir upptök skjálftanna. Þetta er á alkunnu skjálftasvæði en það sem vekur áhuga núna er landrisið á svæðinu. Ekki er þó talið að eldgos sé í aðsigi en síðast urðu staðfest gos á Reykjanesskaganum á 13. öld. Smelltu hér til að sjá umfjöllun um eldstöðvar á Reykjanesskaganum.