Snarpir skjálftar í Bárðarbungu

Birta á :
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands en breytt af síðuhöfundi. Sjá texta til skýringar.
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands en breytt af síðuhöfundi. Sjá texta til skýringar.

Í gærkvöldi og fyrri hluta nætur mældust snarpir jarðskjálftar í Bárðabungu.  Sá stærsti var M4,7 og er stærsti skjálftinn í eldfjallinu frá goslokum árið 2015.  Stóri skjálftinn varð á um 5 km dýpi.  Nokkrir aðrir skjálftar urðu á bilinu M3-4 og fjöldi minni skjálfta.

Það virðist vera að tíðni stærri skjálfta fari vaxandi og það sem einnig vekur athygli er að þeir verða nánast allir á svipuðum slóðum í öskjunni, norðvestan eða norðantil í henni.  Í aðdraganda eldgossins í Holuhrauni dreyfðust þeir víðar og enduðu flestir í suðausturhluta öskjunnar þar sem kvika fann sér svo farveg í sprungusveim sem lá norður og kom að lokum upp í Holuhrauni.

Það er vitað að frá Bárðarbungu liggur einnig sprungusveimur til suðvesturs.  Það var áhyggjuefni fyrir gosið hvort kvika mundi ná að komast inn í þann sprungusveim og gæti á hugsanlega komið upp á Veiðivatnasvæðinu eins og hefur tvívegis gerst eftir landnám.   Það gerðist ekki.

Spurningin er hinsvegar hvað er að gerast þarna norðan til í öskjunni því eins og áður segir virðast allir stærstu skjálftarnir eftir gosið verða þar.  Er kvika að reyna að troða sér þar upp sem gæti leitað til suðvesturs?  Það er ekki útilokað.  Engu að síður er þetta þróun sem gæti tekið mörg ár áður en næsta gos verður.  Þó verður að áætla að miðað við fjölda og stærð jarðskjálfta frá því gosinu lauk þá sé þessari umbrotahrinu í Bárðarbungu alls ekki lokið.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna.  Ég teiknaði inn á hana líklega sprungusveima frá bárðarbungu, annan í átt að Holuhrauni, leið kvikunnar í gosinu 2014-15 og hinn sem ég tel liklegt að liggi til suðvesturs frá öskjunni.

Scroll to Top