Gosið í Holuhrauni orðið mesta hraungos á Íslandi síðan Hekla gaus 1947

Birta á :
Útbreiðslukort af nýja hrauninu sem Jarðvísindastofnun Háskólans hefur gert.
Útbreiðslukort af nýja hrauninu sem Jarðvísindastofnun Háskólans gerði 20.9 2014

Ekki hefur komið upp meira hraun í einu eldgosi á Íslandi síðan í Heklugosinu 1947 sem taldist reyndar vera blandgos fremur en hraungos.  Nú er talið að um 0,5 rúmkílómetrar séu komnir upp af hrauni í gosinu en Hekluhraunið síðan 1947 er um 0,8 km3.  Ef Holuhraunsgosið nær því magni þá þarf að fara allt aftur til Skaftárelda árið 1783 til að finna gos sem hefur framleitt meira magn af hrauni.

Þá er Holuhraunsgosið orðið framleiðnasta gos á Íslandi í hálfa öld, síðan Surtseyjargosið hófst árið 1963.  Það gos stóð í fjögur ár og er talið hafa framleitt um 1,1 km3 af gosefnum en Holuhraunsgosið hefur staðið í rétt rúmar þrjár vikur og þegar framleitt um það bil helminginn af því sem Surtsey framleiddi á fjórum árum.

Það er því nokkuð sama hvar borið er niður í tölfræðinni, eldgosið sem nú stendur yfir í Holuhrauni er þegar orðið nokkuð stórt eldgos í sögulegu samhengi og ekkert sem bendir til þess að því sé að ljúka.  Stöðugt sig mælist í öskjunni, skjálftavirkni er mikil og GPS mælingar sýna enn talsverða gliðnun.

Jafnvel í samanburði við fyrri hraungos í Bárðarbungukerfinu þá er gosið orðið allstórt.  Gamla Holuhraunið sem kom upp í gosi árið 1797 er aðeins um 5 ferkílómetrar að flatarmáli en nýja hraunið er að nálgast 40 ferklílómetra.  Þá er hraunið þegar orðið stærra en Tröllahraun sem kom upp suðvestan við Bárðarbungu í gosi sem stóð þó yfir í 2 ár árin 1862-4.  Hér er slóð á PDF skjal um það gos.,

Sennilega hefur ekki komið upp meira hraun í Bárðarbungukerfinu síðan í gosinu sem framleiddi hraun sem kallað er Frambruni á Dyngjuhálsi einhverntímann á 13. öld.   Það hefur verið verulega mikið gos því Frambruni (líka kallað Fjallsendahraun) er um 180 ferkílómetrar og 4 rúmkílómetrar að stærð.   Hinsvegar hafa orðið stærri gos í kerfinu t.d. Veiðivatnagosið um 1480 og nokkur gosanna í jöklinum á 18.öld voru allmikil.  Það voru  gjóskugos.

 

Scroll to Top