Vestmannaeyjar

Birta á :

YfirlitVestmannaeyjar

Sjaldan hefur eldgos komið Íslendingum jafnmikið í opna skjöldu eins og gosið sem hófst um miðja nótt í Heimaey 23. janúar 1973.  það kemur upp nánast í byggð og við fjall sem talið var óvirkt og kulnað eldfjall.  Síðan þessir atburðir urðu hefur þekking manna á eldstöðvakerfum, ekki síst Vestmannaeyjakerfinu, breyst mikið.

Í dag vita menn að Vestmannaeyjar hlóðust að mestu upp á síðustu 15.000 árum eða svo sem er mjög stuttur tími í jarðfræðilegu tilliti.  Um 70 goseiningar frá nútíma hafa fundist við Vestmannaeyjar, flestar suður og vestur af Heimaey.  Flestar eru þær neðansjávar og mynda hryggi eða þústir á sjávarbotni sem þýðir að þau gos hafa ekki verið nægilega öflug til að mynda eyjar.  Allmargar eyjar hafa þó náð að myndast, stærst er Heimaey sem er reyndar mynduð úr nokkrum goseiningum sem hafa náð að tengjast saman.  Á því svæði er því augljóslega mesta virknin á í kerfinu.

Talið er að ófullkomin og lítt þróuð kvikuþró sé undir kerfinu og þá væntanlega þar sem virknin er mest, nálægt Heimaey.  Það liggur beinast við að ætla að á næstu tugum þúsunda ára mun hlaðast upp stór megineldstöð í ætt við Mýrdals- eða Eyjafjallajökul á svæðinu og mjög líklega tengjast meginlandinu.

Gossaga á nútíma

Vestmannaeyjakerfið “fæðist” ef svo má segja seint á síðasta jökulskeiði og byrjar að hlaðast upp þá.  Virknin hefur verið í hrinum, sú fyrsta hefst líklega fyrir um 14.000 árum.   Fyrir um 8000 árum gengur næsta hrina yfir svæðið og myndast þá Álsey, Brandur, Suðurey og Hellisey.  Sjálfsagt hafa einnig orðið allmargar neðansjávarmyndanir í þeirri hrinu.  næsta hrina gengur yfir fyrir um 5-6000 árum og þá myndast Helgafell, einnig Stórhöfði, Stakkabótargígur, Elliðaey og Bjarnarey.  Goshrinur í kerfinu standa líklega í nokkur hundruð ár.

Hvenær núverandi hrina hefst nákvæmlega er ekki alveg á hreinu.  Heimildir greina frá neðansjávargosi SV af Heimaey árin 1637-8 og má vera að þá hafi hafist hrina í kerfinu sem stendur enn.  Vitað er að það gaus við Geirfuglasker árið 1896.  það er því etv. ekki rétt að ætla að goshrinan hafi hafist í kerfinu með Surtseyjargosinu árið 1963, nær væri að ætla að þá hafi hrinan náð hámarki.  Gosið í Heimaey 1973 gæti verið síðasta gosið í þessari hrinu og eldstöðin sé nú að hefja hvíld í nokkur þúsund ár.  Það þarf þó ekki að vera.  Vel er fylgst með Vestmannaeyjakerfinu vegna nálægðar þess við byggð en sagan sýnir að það getur gosið nánast hvar sem er í kerfinu.

Scroll to Top