Yfirlit
Torfajökull er á sunnanverðu hálendinu norðan Tindfjallajökuls. Er þar að finna víðáttumesta háhitasvæði landsins og bera örnefni og kennileiti á borð við Landmannalaugar þess merki.
Torfajökulskerfið er um margt mjög sérstök eldstöð. Askjan er í fyrsta lagi gríðarlega stór en þó ekki mjög greinileg í landslaginu. Hún er yfir 200 ferkílómetrar og miðjan er nokkurnveginn við Hrafntinnusker. Telst þetta vera stærsta askja landsins. Í öðru lagi kemur langmest upp af súrum gosefnum í kerfinu en í flestum öðrum eldstöðvum er það fremur sjaldgæft. Mikið er um líparít á Torfajökulssvæðinu og setur það mikinn svip á landslagið á þessum slóðum enda óvenju ljósleitt miðað við hið hefðbundna basalt sem einkennir umhverfi flestra eldstöðva á Íslandi.
Saga kerfisins spannar amk. 800.000 ár og er askjan líklega með þeim elstu á landinu. Merki eru um gríðarlega öflug forsöguleg súr þeytigos í kerfinu sem hafa skilað allt að 20 km3. af gosefnum. Askjan virðist hafa sigið í stærstu gosunum en fyllst jafnharðan aftur.
Fyrir um 200.000 árum hefst mjög athyglisverð atburðarás sem enn stendur yfir. Veiðivatnareinin svokallaða sem er angi úr Bárðarbungukerfinu teygir sig inn í Torfajökulskerfið og nær smámsaman að skera það. Hefur þetta valdið endurteknum kvikuinnskotum í Torfajökulskerfið og skilar það því upp basaltefnum í meira mæli en áður. Virknin í kerfinu virðist nú nánast eingöngu vera samhliða gosum úr öðrum kerfum, aðallega Veiðivatnareininni og er engu líkara en Torfajökulskerfið hafi ekki lengur sjálfstæðan vilja. Gos hafa ítrekað orðið í kerfinu samhliða miklum gos- og rekhrinum í Veiðivatnareininni og hefur þetta gerst í tvígang á sögulegum tíma, í Vatnaöldugosinu um 870 og Veiðivatnaeldum árið 1480.
Annað eldstöðvakerfi þrýstir á úr vestri, Vatnafjallakerfið. Það er reyndar ekki að fullu ljóst hvort það er sjálfstætt eldstöðvakerfi eða tilheyrir Heklu en það gildir einu, í allnokkur skipti hefur kvika úr þessu kerfi ruðst inn í Torfajökulskerfið og valdið gosum.
Gossaga á nútíma
Alls er að finna um 20 nútímagoseiningar í kerfinu úr um 10 goshrinum. Sú þróun sem hér var lýst á undan er enn í fullum gangi og á nútíma (síðustu 10-12.000 ár) hafa eingöngu orðið gos í Torfajökulskerfinu samfara miklum gosum í Veiðivatnareininni eða af völdum umbota í Vatnafjöllum. Í öllum tilfellum hafa þetta verið fremur lítil gos, amk. í samanburði við hamfarirnar í Veiðivatnareininni. Virðist þetta gerast nokkuð reglulega á 6-700 ára fresti, fyrst um árið 100, síðan árið 870 og síðast árið 1480 og ætti því að vera farið að styttast í að þessir atburðir endurtaki sig. Má hugsanlega ætla að óróleiki í Bárðarbungu undanfarna tvo áratugi geti á endanum leitt til öflugrar gos- og rekhrinu á þessum slóðum.