Sprengigosið í Öræfajökli 1362 er mannskæðasta eldgos sem orðið hefur á Íslandi og um leið eitt mesta gjóskugos á jörðinni síðustu árþúsund. Rúmmál gjóskunnar hefur verið um 10 rúmkílómetrar sem er um 4 sinnum meira en í Heklugosinu 1104 sem þó var mjög stórt gos. Eins og algengt er í stórum þeyti eða sprengigosum þá var gjóskan súr og ljóslit. Hún finnst víða í jarðvegi suðaustan lands.
Óvíst er hve margir fórust í gosinu en talið er að 20-40 býli hafi verið í byggð á Litlahéraði árið 1362. Þau sópuðust í burtu í hamfarahlaupi sem æddi niður undan háu og bröttu fjallinu. Byggðin eyddist með öllu, fólk og fénaður fórst. Mikið tjón varð annarsstaðar í nágrenni eldstöðvarinnar.
Gosið varð eftir um 900 ára goshlé í fjallinu. Öræfajökull gaus svo aftur árið 1727. Það var miklu minna gos en þó lét fjallið illa. Það er kannski eins gott að Öræfajökull sé ekki virkara eldfjall en hann er, þau fáu gos sem þar verða eru ekki þau þægilegu og meinlausu túristagos sem við vildum helst sjá.