Bárðarbunga er ein af hættulegri eldstöðvum landsins. Í annað skiptið frá landnámi verður mikil rek- og goshrina í eldstöðinni og hún sendir frá sér kvikuskot neðanjarðar til suðvesturs og afleiðingin er stórt sprungugos að fjallabaki. Í fyrra skiptið var svokölluðu Vatnaöldugosi nýlokið eða í þann veginn að ljúka þegar fyrstu landnámsmenn stigu á land. Það líða 610 ár þar til Veiðivatnaeldar eiga sér stað.
þessi goshrina hófst reyndar með gosi rétt norðaustan við Bárðarbungu sjálfa í jöklinum 1477 með mjög öflugu gosi. Til er heimild frá þessu gosi:
Á þriðjudaginn fyrstan í einmánuði var samkoma leikra og lærðra á Grund í Eyjafirði og í heitbréfi sem þá var samsett, er talað um undur og ógnir af eldgangi, sandfalli og öskumyrkrum og ógurlegum dunum; af þessum undrum þreifst fénaður ekki við , en þó var snjólaus jörð; Kom þeim ásamt, að þetta mundi vorðið hafa fyrir syndagjöld og ranglæti manna.
Þorvaldur Thoroddsen taldi þetta gos hafa verið í eldstöðvum fyrir norðan, annaðhvort við Mývatn eða í Ódáðahrauni en nú er vitað að þetta gos var í Bárðarbungu.
þrem árum síðar opnast Veiðivatnasprungan, allt að 30 km. löng. Til að byrja með var þetta mjög öflugt gjóskugos meðan vatn komst í gosrásirnar en er það þraut þá gaus basalthraunum. Gjallgígar hlóðust þá upp.
Gjóskan í gosinu barst aðallega til norðurs og norðausturs yfir hálendið. Það hefur því ekki valdið tiltakanlegu tjóni nema hugsanlega á norðausturlandi. Gjóska var um 3,5 rúmkílómetrar og hraun um 0,4 mk3. Ekki er vitað hve lengi þetta gos stóð eða hvort þetta var eitt gos eða fleiri með einhverju hléi á milli. Samtímis þessu gosi gaus í Torfajökulskerfinu nærri Landmannalaugum. Þessi kerfi virðast nátengd því þetta átti sér einnig stað árið 870 þegar Vatnaöldugosið gekk yfir.
Frá landnámi var þetta þriðja stóra sprungugosið á svæðinu frá Mýrdalsjökli , að Fjallabaki og að Vatnajökli og annað þar sem Bárðarbunga er sökudólgurinn. Hið fyrsta var Vatnaöldugosið, ættað úr Bárðarbungu, þá Eldgjárgosið ættað úr Kötlu, síðan Veiðvötn og rúmum 300 árum síðar gengu Skaftáreldar yfir.