Stórgos sem gátu valdið miklu tjóni, haft áhrif á veðurfar og gert fleiri óskunda hafa orðið á Íslandi að jafnaði tæplega einu sinni á öld. Segja má að 20. öldin og það sem af er þessari, hafi aðeins verið sýnishorn af því sem hér getur gerst, jafnvel þó við höfum nýlegt dæmi um eldgos sem olli miklu tjóni, Heimaey 1973 þá var það í raun tiltölulega lítið gos. Síðasta stórgosið varð í Öskju árið 1875. það gos hafði víðtækar afleiðingar. Vegna þess hófust Ameríkuferðirnar, þúsundir Íslendinga settust að í Kanada og Bandaríkjunum í kjölfar þessara hamfara sem lögðust sérlega hart á Austfirðinga.
það eru fyrst og fremst stóru megineldstöðvarnar sem hafa valdið þessum stórgosum en stundum með afbrigðilegri hegðun eins og gosum utan við eldstöðvarnar sjálfar. Vatnaöldugosið og Veiðivatnagosið eru bæði ættuð úr Bárðarbungu í Vatnajökli en þaðan hafa á 5-800 ára fresti orðið kvikuhlaup til suðvesturs og valdið miklum gosum á löngum gossprungum. Sprungur sem opnast hafa við þessar aðstæður verða margra tuga kílómetra langar. Annað dæmi eru Skaftáreldar. Þeir eru ættaðir úr Grímsvatnakerfinu. Þá er Kötlugosið 932 afbrigðilegt, sprunga opnaðist norður úr Kötlu og þá myndaðist Eldgjá en hún er um 50 km löng gossprunga. Það gos er í dag talið hafa verið mun stærra en Skaftáreldar hvað varðar magn gosefna. Ef svipaðar hamfarir yrðu í Kötlu i dag þá hefði það gífurleg áhrif, ekki bara hér á landi heldur mundi það valda kólnandi veðurfari um allan heim.