Snæfellsjökull og hraun frá eldstöðvum í fjallinu

Snæfellsnes

Birta á :

YfirlitSnæfellsnes

Snæfellsnesið allt telst vera jaðargosbelti sem nær frá annesjum vestast á nesinu og inn í efri hluta Norðurárdals í Borgarfirði.   Þrjú eldstöðvakerfi eru á nesinu, kennd við Snæfellsjökul, Lýsuskarð og Ljósufjöll.   Á nesinu er einnig að finna fornar, kulnaðar megineldstöðvar eins og Setbergseldstöðin við Grundarfjörð.   Eldstöðvar á Snæfellsnesi eru mun eldri en flestar aðrar virkar eldstöðvar á landinu og í heild má líta þannig á að virkni sé smámsaman að deyja út á nesinu.  Af og til verða þó hrinur í öllum virku kerfunum, síðast í Ljósufjallakerfinu skömmu eftir landnám.

Snæfellsjökull

Snæfellsjökull er eitthvert glæsilegasta fjall landsins, sveipað dulúð og hefur orðið vettvangur margra frægra ritverka eftir höfunda allt frá Jules Verne til Halldórs Laxness.  Svo segir í Kristnihaldi undir jökli:

,,Þessi jökull er aldrei einsog vanalegt fjall. Sem fyr segir er þetta aðeins búnga og nær ekki æði hátt uppí loftið. Það er einsog þetta fjall hafi aungva skoðun. Það heldur aungvu fram. Það vill aungvu troða uppá neinn. Aldrei ætlar það ofan í mann. Vel bergklifrandi menn koma híngað rakleitt til að ganga fjallið af því að það er eitt af frægustu fjöllum heimsins, og þegar þeir sjá það, spyrja þeir; er þetta þá alt og sumt; og nenna ekki upp!”

Snæfellsjökull er  virk eldkeila -1446 metra há-  sem sést víða að.  Elsta bergið sem fundist hefur í fjallinu er um 840.000 ára en þó er talið að það stærstur hluti þess sé yngri en 130.000 ára og hafi því hlaðist að mestu upp á síðasta jökulskeiði ísaldar.  Talið er að gosið hafi allt að 40 sinnum í kerfinu á nútíma.  Í langflestum tilvikum hefur verið um að ræða fremur lítil hraungos í hlíðum eða útjaðri fjallsins, mest vestan og

norðvestan til.  Hinsvegar er vitað um þrjú súr sprengigos  væntanlega úr aðalgíg fjallsins á nútíma.  Það fyrsta varð fyrir um 9000 árum,  það næsta  fyrir um 4000 árum og það síðasta fyrir um 1750-1800 árum.  það gos er talið hafa verið mesta gos í fjallinu á nútíma og síðan hefur kerfið ekki bært á sér.

Engin jarðskjálftavirkni mælist í jöklinum.  Hinsvegar verður að horfa til þess að Snæfellsjökull er virk eldkeila og goshlé er orðið æði langt.  Það má búast við að hvað úr hverju fari jökullinn að bæra á sér aftur en þá er minniháttar hraungos utan jökuls líklegra en sprengigos í aðalgígnum.  Fyrirvararnir yrðu væntanlega jarðskjálftar.  Það ber alltaf að taka með í reikninginn að Snæfellsjökull er vel fær um að valda miklum hamförum í versta tilfelli en vonandi er langt í slíka atburði.

Snæfellsjökull og hraun

Lýsuskarð

Kerfið er fremur smátt og minnst virku eldstöðvanna á Snæfellsnesi.  Ekki er megineldstöð  í kerfinu.  Nær það frá Tröllatindum norðan Staðarsveitar út að Búlandshöfða og er um 30 km. langt.   Miðja eldstöðvarinnar er við Lýsuskarð.  Kerfið hefur verið vel virkt á síðustu ísöld en á nútíma virðast hinsvegar aðeins hafa orðið tvö minniháttar gos.  Hraun er nefnist Bláfeldarhraun hefur runnið í tilkomumiklum fossi suður af hálendinu.  þetta hraun hefur ekki verið aldursgreint en er þó ekki sérlega ellilegt að sjá, líklega nokkur þúsund ára gamalt.

Bláfelldarhraun

Ljósufjöll

Ljósufjallakerfið er öllu mikilfenglegra, stærra og virkara en Lýsuskarðskerfið.  Þó er þar heldur ekki megineldstöð að finna heldur.  Ljósufjallaþyrpingin nær frá Kolgrafafirði í vestri að Norðurá í austri. Þetta er fjallaþyrpingin sunnan við Stykkishólm.  Kerfið er um 90 km. langt og allt að 20 km. breitt. Nafnið er dregið að ljósum lit fjallanna sem rekja má til súrra bergmyndana á borð við líparít.

Ólíkt Lýsuskarðskerfinu þá hefur Ljósufjallakerfið verið mjög virkt á nútíma og hefur verið hægt að rekja um 23 eldgos til kerfisins.  Fleiri en eitt gætu þó tilheyrt sömu hrinu.  Yfirleitt hefur verið um stuttar gossprungur að ræða.  Meðal þekktustu goseininga kerfisins er Eldborg í Hnappadal sem hefur verið mynduð í fremur stuttu flæðigosi fyrir meira en 5.000 árum.   Lengi vel var talið að Eldborg væri mynduð eftir landnám því Sturlubók Landnámu heldur því fram.  Það hefur þó reynst misskilningur hjá skrásetjara og var átt við Rauðhálsahraun sem er ofan á landnámslaginu frá 870 og því runnið eftir þann tíma.  Telst það hraun og gosið sem því olli eina goseiningin frá eldstöðvakerfum á Snæfellsnesi eftir landnám.

Vissulega er þjóðsagan um Eldborgarhraun þó skemmtileg – grípum niður í Landnámu:

Þá var Þórir gamall ok blindr, er hann kom út síð um kveld, ok sá at maðr reyri utan í Kaldárós á járnnökkva, mikill ok illiligs, ok gekk þar upp til bæjar þess er í Hripi hét, ok gróf þar í stöðulshliði; en um nóttina kom þar upp jarðeld, ok brann þá Borgarhraun; þar var bærinn sem nú er Borgin.

Hinsvegar má segja að Grettissaga afsanni þessa frásögn Landnámu um tilurð Borgarhrauns því þar segir að Grettir hafi elt Gísla inn í Borgarhraun, Grettir reif upp hríslu mikla og hýddi Gísla með henni.  Þetta mun hafa verið árið 1022.  Þá hefði Borgarhraun átt að vera 70-80 ára gamalt en þó orðið skógi vaxið en það nær engri átt.

Flestar nútímagoseiningarnar eru við miðju kerfisins og svo austan þess, jafnvel allangt austantil í kerfinu.  Grábrók í Norðurárdal er hluti af  3600 ára gamalli gígaröð austast í kerfinu.  Þá eru nokkrar goseiningar í Hítardal.

Það er alveg ljóst að vegna nálægðar við ýmis byggðalög þá getur Ljósufjallakerfið gert verulega skráveifu þó gosin séu að jafnaði ekki stór í kerfinu.  Þetta eru minniháttar hraungos fyrst og fremst.  Goshlé hefur staðið nú yfir í um 1100 ár.  Engar vístbendingar eru þó um að Ljósufjallakerfið sé að fara að vakna til lífsins frekar en önnur eldstöðvakerfi á Snæfellsnesi.

Eldborg í Hnappadal

Grábrók í Norðurárdal - Vestasta eldvarpið sem tilheyris Snæfellsneskerfunum, gaus fyrir um 3600 árum.

Scroll to Top