Öræfajökull

Birta á :

Yfirlit

Öræfajökull er í sunnanverðum Vatnajökli og  er hæsta fjall Íslands.  Tindurinn Hvannadalshnjúkur telst sá hæsti hér á landi og er 2110 m hár.   Fjallið er virk eldkeila í ætt við Eyjafjallajökul og Snæfellsjökul en þó allmiklu stærra og rúmmálsmeira en aðrar Íslenskar eldkeilur.   Um 5 km breið og 500 metra djúp askja er við topp fjallsins og er hún full af jökulís.  Allmargir skriðjöklar falla frá öskjunni.

Öræfajökull er staðsettur á jaðargosbelti utan hefðbundnu gosbeltanna.  Í raun er hann eina eldstöðin á þessu belti sem hefur sýnt einhverja virkni á nútíma.  Hinar eldstöðvarnar sem menn telja að liggi á þessu belti eru Snæfell og Esjufjöll í Vatnajökli.  Reyndar hefur af og til orðið töluverð jarðskjálftavirkni við Esjufjöll og þar virðast hafa orðið minniháttar umbrot árið 1927.

Meginhluti Öræfajökuls er talinn hafa hlaðist upp á síðastliðnum 350.000 árum en fundist hefur miklu eldra berg í eldstöðinni og margt sem bendir til þess að eldvirkni hafi tekið sig upp aftur eftir mjög langt hlé þar á undan.  Eins og vænta má hafa fundist merki um forsöguleg stórgos í fjallinu.  Talið er hugsanlegt að megineldstöð hafi myndast sunnantil í fjallinu á ísöld en splundrast í miklu þeytigosi snemma á nútíma.  Ummerki um þessa megineldstöð sjást í undirhlíðum jökulsins.  Hér má sjá athyglisverða grein um þessa megineldstöð en það er Sigurður Björnsson bóndi og fræðimaður á Kvískerjum sem hefur rannsakað þetta.

Öræfajökull gægist upp úr skýjahulunni

Gossaga á nútíma

Fjöldi gosa í jöklinum á nútíma nær nú vart að fylla tuginn.  Nokkur smágos verða þar til fyrir 2800 árum en þá verður töluvert gos og svo annað stærra fyrir 1500 árum.

Aðeins tvö gos hafa orðið í fjallinu eftir landnám.  Það fyrra er reyndar mesta sprengigos sem orðið hefur hér á landi frá því land byggðist.  Því gosi eru gerð nánari skil undir “Stórgos frá landnámi”.   Þetta gos sem varð árið 1362 er ennfremur það mannskæðasta sem orðið hefur hér á landi ef frá er talið mannfallið sem varð óbeint vegna Skaftárelda árið 1783.  Magn gosefna í gosinu árið 1362  er talið hafa verið um 10 km3.  sem er geysimikið.  Til samanburðar var magn gosefna í Eyjafjallajökulsgosinu árið 2010 áætlað um 0,3 km3  eða ríflega 30 sinnum minna.

Öræfajökull gaus svo aftur árið 1727.  Það gos var miklu minna, gosefnamagnið svipað og í Eyjafjallajökulsgosinu  en olli þó tjóni.  3 menn fórust í hlauphrinum og eignatjón varð einnig.

Hvað sem öllu líður þá er að jafnaði nokkuð langt á milli gosa í Öræfajökli en virkni kann þó að aukast tímabundið á næstu öldum vegna bráðnunar jökulsins og þrýstingsbreytinga af þeim völdum.  Lítil sem engin jarðskjálftavirkni mælist í Öræfajökli ólíkt flestum öðrum megineldstöðvum í Vatnajökli.

Færslur á eldgos.is sem tengjast Öræfajökli:

Hvað er að gerast í Öræfajökli?  nóv 2017

Scroll to Top