Krafla

Birta á :

YfirlitKrafla

Krafla er eldstöðvakerfi með megineldstöð á norðaustanverðu landinu með miðju skammt norðaustan Mývatns.  Eldstöðvakerfið er um 100 km. langt og um10 km. breitt.   Eldfjallið Krafla lætur ekki mikið yfir sér, er lágt og bungumyndað.   Krafla er þó í raun nafn á fremur litlu fjalli í öskjunni en eldstöðvakerfið í heild ber sama nafn.   Askjan er um 10 km. breið.  Norður af henni er allmikill sigdalur, Gjástykki.    Mjög margar gosmyndanir eru í eldstöðvakerfinu, flestar frá jökulskeiði en eldvirkni í kerfinu hefur hafist fyrir amk. 250.000 árum.  

Mest virkni hefur verið í grennd við öskjuna og suður af henni á svæðinu austan Mývatns.  Kerfið teygir sig þó langt til norðurs, alla leið til sjávar í Axarfirði og þekja nútímahraun stóran hluta þess.

Kröflukerfið er mjög vel rannsakað vegna eldsumbrotanna sem þar urðu árin 1975-84.  Aðdragandinn var mikil jarðskjálftavirkni sem hófst haustið 1974 og ágerðist stöðugt.  Mest skjálftavirknin var norðantil í kerfinu, í Kelduhverfi.  Hámarki náðu þessir skjálftar 13. janúar 1976 með 6,5 stiga skjálfta á Richter í grennd við Kópasker.  Þá þegar hafði orðið lítið eldgos við Kröflu og ljóst var að rek- og goshrina var hafin í kerfinu. 

Vegna nálægðar við byggð og yfirstandandi virkjanaframkvæmda á svæðinu var kerfið “tekið í gjörgæslu” af fræðingum og rannsakað mjög vel næstu árin.  Hrinan stóð yfir í 9 ár með hléum og urðu 9 gos á þessu tímabili.  Til allrar hamingju urðu þau öll á óbyggðu svæði í grennd við öskjuna og norður af henni og ógnuðu heldur ekki Kröfluvirkjun.  Það voru þó ekki eingöngu gosin sem voru varasöm, mikil hreyfing var á öllu svæðinu, öflug jarðskjálftavirkni og land reis og seig á víxl.  

Þó basaltflæðigos hafi verið fyrirferðarmest í síðustu goshrinum í kerfinu þá er þar að finna fjölbreyttar gosmyndanir, sprengigígi á borð við Hverfjall og fjöll úr súru bergi eins og Jörundur.  

 Hverfjall   

Gossaga á nútíma

Gossögu kerfisins á nútíma hefur verið skipt í þrjú löng skeið og innan þeirra verða goshrinur.  Skeiðið sem kennt er við Lúdent hefst reyndar eitthvað fyrir upphaf nútíma en lýkur fyrir um 7000 árum.  Á þessu skeiði urðu allmargar goshrinur víða í kerfinu, þó sýnu mest í grennd við öskjuna.  Lúdent sjálfur varð til í þeytigosi á þessu skeiði.

þegar þessu gostímabili lýkur hefst tímabil sem kallað er Hvannastóðsskeið. Er þá  fremur rólegt í kerfinu lengi vel en fyrir um 3500-4000 árum verður mikið hraungos og myndast þá Ketildyngja.  Hraunið er nefnt Laxárhraun eldra og er mikið hraun eða um 4 km3.  Síðan virðist allt með kyrrum kjörum þar til núverandi gostímabil hefst fyrir um 2800 árum með þeytigosi sem myndar Hverfjall og er það skeið einmitt kennt við Hverfjall.   það myndaðist í stuttu en öflugu þeytigosi.   Í þessari hrinu urðu svo gos í Hrossadal, við Leirhnjúk, við Éthóla og víðar.

Fyrir um 2200 árum hófst goshrina sem kölluð er Hólseldar fyrri.  Þau gos urðu nálægt Kröflu og voru fremur lítil.  Hólseldar síðari  urðu svo fyrir um 2000 árum og var sú hrina miklu öflugri.  Gaus þá í aðalgosinu á 12 km. langri sprungu og myndaði það gos Þrengslaborgir og Lúdentsborgir.  Hraun rann í Mývatn og niður í Laxárdal og Aðaldal.  Náði þetta hraun allt til sjávar við Skjálfanda.  Dimmuborgir urðu til um svipað leyti er mjög stór hrauntjörn tæmdist og eftir stóðu storknaðir drangar og hraunþústir sem mynduðu þessa einstæðu náttúrusmíði.  Þessi hrauntjörn hefur væntanlega verið um 2 km. í þvermál og geta menn reynt að ímynda sér hvílíkt sjónarspil hún hefur verið.  

 Dymmuborgir  

 

Það lýða svo um 900-1000 ár þar til kerfið bærir næst á sér og er sú hrina kölluð Dalseldar.  Mun hún hafa gengið yfir skömmu eftir landnám.  Var aðalgosið þá í Dalfjalli og á þeim slóðum þar sem Kröfluvirkjun stendur nú.  Var þetta þó fremur afkastalítil hrina.  

 

Næst bærir kerfið á sér á 18. öld, í hrinu sem gengur yfir á árunum 1724 -29.  Eins og rúmum tveimur öldum síðar einkenndist hrinan af gliðnunarhreyfingum, landsigi, jarðskjálftum og eldgosum.  Fór hún vaxandi eftir því sem á leið.  Í apríl 1728 gaus á þremur stöðum í kerfinu, við Leirhnjúk, í Hrossadal og í Bjarnarflagi örskammt frá byggð.  Aftur gaus við Leirhnjúk í desember sama ár og munaði þá minnstu að hraun næði niður í byggð en svo fór þó ekki í það skiptið.  Það gerðist hinsvegar rúmum mánuði síðar ,30. janúar 1729, þegar aftur gaus við Leirhnjúk og hraun eyddi þremur bæjum og rann að lokum í Mývatn.   Síðan var kyrrt þar til árið 1746 þegar lítið gos varð við Leirhnjúk.  

 

Hófur  

 

Kröflueldarnir 1975-84 var í heildina mun afkastameiri hrina en Mývatnseldar 1724-29 en sem áður segir urðu kröftugustu gosin í þeirri hrinu mun fjær byggð og ollu engu tjóni.  Það er þó ljóst að það munaði ekki miklu að verr hefði farið því sum kvikuhlaupinu urðu til suðurs frá Kröflu en í þeim tilvikum kom aldrei upp gos fyrir utan eitt skipti er hraunsletta kom upp úr borholu í Bjarnarflagi.  Það er því ljóst að mjög litlu mátti muna.  

 

Miðað við söguna ætti Krafla ekki að bæra á sér næstu aldirnar.  

 

Mývatn  

 

Leirhnjúkur  

 

Námaskar 

Scroll to Top