Hvað er að gerast í Öræfajökli ?

Hvannadalshnjúkur
Hvannadalshnjúkur og Öræfajökull

Öræfajökull er stór og mikil eldkeila og hæsta fjall Íslands.  Siðan jarðskjálftamælingar hófust hefur verið afskaplega lítil skjálftavirkni í eldstöðinni en nú allra síðustu ár hefur farið að bera á smáskjálftum og tíðni þeirra virðist vera að aukast.  Þann 4. október s.l.  varð skjálfti upp á M 3,4 í fjallinu og smáskjálftar á bilinu M 0,5-2 eru að mælast flesta eða alla daga.

Gos í Öræfajökli eru fátíð, aðeins tvö frá landnámi og meðal tímalengd á milli gosa hefur verið áætluð um 400-900 ár.  Eldfjöll breyta þó oftar en ekki um goshegðun og nærtækasta dæmið um slikt er Hekla sem áður gaus nokkuð reglulega tvisvar á öld en kemur svo með fjögur gos á aðeins 30 árum.

Öræfajökull gaus árið 1362 griðarlegu sprengigosi ,mesta sprengigosi á Íslandi síðan land byggðist.  Það er talið að allt að 400 manns hafi farist í því gosi þegar blómleg byggð í Öræfasveit er nefndist Litla Hérað, varð gusthlaupum og eða jökulhlaupum að bráð í gosinu og eyddist með öllu.   Til allrar hamingju eru ekki öll gos í Öræfajöklu svona stór, gosið árið 1727 var miklu minna og hefur líklega svipað til gossins í Eyjafjallajökli árið 2010.   Ef Öræfajökull er að undirbúa gos þá verður að telja mun líklegra að gosið verði minniháttar eða miðlungsgos fremur en eitthvað í ætt við hamfarirnar árið 1362.

En miðlungsstórt gos í Öræfajökli er þó ekkert gamanmál.  Þar sem fjallið er mjög bratt  þá mundi jökulhlaup ná niður á þjóðveg og í byggð á mun skemmri tíma en frá flestum öðrum eldstöðvum undir jöklum á Íslandi.  Mögulegar og líklegar hlaupleiðir eru líka lítt þekktar og kannaðar miðað við t.d. frá Kötlu.

En spurningunni hvort Öræfajökull sé að undirbúa gos er hægt að svara játandi.  Tíðni jarðskjálfta er smámsaman að aukast og þeir eru á dýpi þar sem verður að telja liklegt að kvikuhólf sé til staðar í fjallinu.  Kvika virðist því vera að streyma í hólfið og Gps mælingar staðfesta jafnramt að fjallið er að þenjast út.

Þar sem vísindamenn þekkja ekki  forsögu gosa í Öræfajökli þá er ómögulegt að áætla hve löng þessi þróun getur verið áður en til goss kemur.  Svo má heldur ekki gleyma því að “áfylling kvikuhólfa” stöðvast stundum en slíkt gerðist t.d. í Henglinum um aldamótin þegar allt virtist stefna í gos þar.  En það er full ástæða til að fylgjast með Öræfajöki enda stór og varasöm eldstöð.

Vístindamenn hafa getið sér til að minnkandi jökulfarg kunni að skýra skjálftana.  Það getur meira en verið en minnkandi jökulfarg getur jafnframt þýtt aukna tíðni gosa.  Mörg gríðarstór gos urðu t.d. á landinu þegar ísaldarjökullinn var að bráðna og tíðni þeirra jókst mikið.  Það er ekki óliklegt að virkni eldstöðva í Vatnajöki muni sýna svipaða þróun næstu áratugi og aldir ef jökullinn heldur áfram að hopa vegna loftslagsbreytinga.