Allsnarpur skjálfti við Árnes í Þjórsárdal
Jarðskjálfti sem mældist M 4,4 varð skammt suðaustur af Árnesi í Þjórsárdal um hádegisbilið í dag. Skjálftinn fannst víða á Suðurlandi og var nokkuð harður nærri upptökunum. Þetta er vel þekkt skjálftasvæði og tengist ekki eldvirkni. Hekla er sú eldstöð sem er næst þessari jarðskjálftasprungu en þó alveg ótengd henni.
Suðurlandsskjálftar eiga yfireitt ekki upptök á þessum slóðum, beltið sem þeir verða oftast á liggur nokkuð sunnar. Þó varð skjálfti árið 1630 sem talinn er hafa verið um M 7 af stærð líklega á þessari sprungu. Vel má vera að þarna skjálfi næstu daga en ólíklegt að þeir skjálftar verði öflugri en sá sem varð í dag, þó aldrei sé hægt að útiloka að um forskjálfta að stærri skjálfta sé að ræða.