Óbreytt ástand við Bárðarbungu – Askjan sígur áfram og gosið kraumar

Birta á :

Ástandið við Bárðarbungu er stöðugt ef svo má segja, askjan er að síga um hálfan til einn meter á sólarhring og er sigið mest þegar stóru skjálftarnir mælast.  Ekki er að sjá að neitt sé að hægja á siginu en heldur hefur þó dregið úr gosinu í Holuhrauni síðustu vikuna.  Þessi fasi umbrotanna gæti varað í einhverjar vikur til viðbótar en á endanum verða breytingar.  Helsta ógnin núna virðist vera mengunin vegna brennisteinstvíildis (SO2) sem hefur víða mælst mikil á austur og norðausturlandi síðustu daga.  Þessi mengun er fyrst og fremst óþægileg en varla hættuleg, til þess þarf hún að aukast mjög mikið.  Fólk sem er viðkvæmt  fyrir eða með undirliggjandi sjúkdóma ætti því að halda sig innandyra þegar mengunin er sem mest.  Hér er hægt að fylgjast með menguninni á vef Umhverfisstofnunar.

Hvað þýðir öskjusig og hversu algengt er það ?

Þegar það varð ljóst að askja Bárðarbungu er að síga allverulega þá brá mönnum í brún því öskjusig eru fremur fátíð og gjarnan tengd stórgosum.  Eina öskjusigið sem vitað er með vissu að hafi átt sér stað hér á landi frá því land byggðist er  í Öskju í Dyngjufjöllum í kjölfar stórgossins árið 1875.   Jafnvel í stærstu gosum Íslandssögunnar, Skaftáreldum og Eldgjárgosinu hefur hingað til ekki verið talið að öskjusig hafi átt sér stað.  Sama er að segja um eldgos tengd Bárðarbungu á sögulegum tíma t.d. Vatnaöldu – og Veiðivatnagosin sem þó voru mjög stór.  Það er því margt í þessum umbrotum sem er óvenjulegt og erfitt að skýra með góðu móti.  Þar sem Bárðarbunga er algjörlega hulin ís þá er erfiðara að rannsaka söguna, vel má vera að öskjusig hafi orðið í þessum umbrotum án þess að þess hafi orðið vart enda vita menn af núverandi öskjusigi einungis vegna nútímatækni.  Sigið er enn sem komið er vart sjáanlegt nema á mælitækjum.  Til þess að öskjusig verði þarf mikið magn kviku að fara á hreyfingu.  Þannig er staðan nú, mikið magn streymir enn eftir kvikuganginum til gosstöðvanna í Holuhrauni en hinsvegar má telja víst að aðeins lítill hluti kvikunnar komi upp í gosinu.  Haraldur Sigurðsson eldjallafræðingur telur að aðeins 5-10% kvikunnar komi upp í gosinu og færir fyrir því sterk rök.

Allar öskjur hafa  á einhverjum tímapunkti orðið til.  Askjan í Bárðarbungu er mjög stór og hefur væntanlega myndast í feiknaöflugu gosi eða gosum einhverntímann í fyrndinni.  Þá er algengt að megineldstöðvar geymi tvær eða jafnvel fleiri öskjur, þannig eru amk. þrjár öskjur í Dyngjufjöllum, hver ofan í annarri.

Hve lengi standa rek- og gliðnunarhrinur ?

Oft árum saman.  Tvær slíkar hrinur eru þekktar úr Kröflukerfinu á sögulegum tíma , önnur stóð yfir í 5 ár frá 1724-9 með allmörgum gosum.  Flest  smá en hraun rann þó til byggða við Mývatn.  Kröflueldar síðari stóðu yfir í 9 ár frá 1975-84 með allmörgum minniháttar gosum.  Gosið nú í Holuhrauni er nú líklega  þegar  orðið meira en öll þau gos til samans í rúmmáli hrauns talið og þessi umbrot öll eru af miklu stærra kaliberi, miklu meira magn kviku á hreyfingu.  Þessi umbrotahrina gæti því staðið í nokkur ár með gosum víðsvegar í sprungukerfi Bárðarbungu, allt frá smágosum upp í hugsanlega eitt eða fleiri meiriháttar eldgos.  Fyrri gliðnunarhrinur í Bárðarbungu eru lítt þekktar nema stærstu gosin í þeim.  Því er ekki vitað hve lengi þær stóðu yfir.

Sviðsmynd eitt.  Gosið í Holuhrauni fjarar smámsaman út og öskjusigið stöðvast.
Sviðsmynd 1. Gosið í Holuhrauni fjarar smámsaman út og öskjusigið stöðvast.

Aftur að mögulegum sviðsmyndum

Allnokkuð hefur verið fjallað um þær sviðsmyndir sem taldar eru líklegastar.  Nú eru aðallega þrjár slíkar í umræðunni.  Skýringarmyndir hafa verið uppfærðar.  Nú er helst talið að kvikuþró undir Bárðarbungu sé á nokkru dýpi, hve miklu er ekki vitað.  Ekki er vitað hvort grunnstætt kvikuhólf sé þar fyrir ofan, etv. er líklegra að stóra kvikuþróin sjálf sé lagskipt.  Miðað við dýpt skjálfta í kvikuganginum þá er gangurinn á um 10-15km. dýpi en efsti hluti kvikuþrónnar gæti verið töluvert nær yfirborði.  Þar sem mjög fáir skjálftar mælast í miðju öskjunnar þá bendir það til þess að ofan við kvikuþróna sé seigt efni og styður þannig lagskiptinguna.  Út frá því er gengið í þessum skýringarmyndum.  Smellið á myndirnar til að stækka þær.

1.  Öskjusig í Bárðarbungu hættir áður en það verður mikið og gosið í Holuhrauni fjarar út.   Þetta er enn til í stöðunni en kannski ekki líklegt.  Þegar öskjusig er á annaðborð hafið þá er líklegra að það haldi áfram þar til umtalsvert magn kviku hefur með einhverju móti komist undan eldstöðinni.  Besta sviðsmyndin er að umbrotin fjari út, gosið kraumi í einhverjar vikur og því ljúki hægt og rólega.

.

2.  Stórt öskjusig í Bárðarbungu.  Gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex.  Mögulegt að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli.  Einnig er mögulegt að sprungur opnist annarstaðar undir jöklinum. 

Sviðsmynd 2.  Gos innan og utan jökuls.  Stór gos möguleg.
Sviðsmynd 2. Gos innan og utan jökuls. Stór gos möguleg.

Þessi sviðsmynd er kannski hvað líklegust miðað við stöðuna eins og hún er.  Við höfum þrennt sem bendir til þessarar atburðarrásar, 1. Öskjusig, 2. Gliðnunarhrinu og 3. Mikil kvika er á hreyfingu.  Nú þegar hafa orðið nokkur smágos í jöklinum sem ekki náðu að bræða sig í gegn  um ísinn og tvö smágos til viðbótar við Holuhraunið fyrir utan gosið sem nú er í gangi.  Þetta er atburðarrás sem gæti náð yfir nokkurra ára tímabil með nokkrum gosum.  Þau gætu orðið á svipuðum slóðum og nú gýs, ennfremur í Dyngjujökli og alls ekki má útiloka að kvikugangur opnist til suðvesturs og inn á Veiðivatnareinina eins og gerðist árin 870 og 1480.  Við slíkar aðstæður er hætt við að það mundi opnast mjög löng gossprunga, jafnvel yfir 30 kílómetrar til suðvesturs.  Þetta er eins og við höfum áður sagt hættulegasta svæðið hvað varðar gos í Bárðarbungu.  Jafnvel stórt gos í öskjunni sjálfri er skárra.

.

3. Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti.  Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi.  Öskufall gæti orðið nokkuð.

Jarðvísindamönnum hefur orðið tíðrætt um mögulegt gos í öskjunni undanfarið.  Hinsvegar eru alls ekki mörg staðfest dæmi um gos í öskju Bárðarbungu og óvíst að þar hafi gosið mjög lengi.   Það er reyndar einnig óvíst hvenæar síðast varð öskjusig í Bárðarbungu, það gætu verið þúsundir ára síðan.  þetta er  kannski ekki líklegasta sviðsmyndin en verði gos á annað borð í öskjunni þá er líklegra en ekki að það verði stórt því þá hefur kvikan fundið tiltölulega beina leið upp á yfirborðið úr kvikuþrónni.  það verður þó tæplega langvarandi, gos undir jökli eru það yfirleitt ekki.  Mikil hætta er á jökulhlaupi, jafnvel hamfaraflóði og má sjá ummerki slíkra flóða t.d. í Jökulsárgljúfrum og Ásbyrgi.

Sviðsmynd 3.  Gos í öskju Bárðarbungu.
Sviðsmynd 3. Gos í öskju Bárðarbungu.

Mjög stórt gos í öskjunni er möguleiki og mundi eins og áður hefur verið bent á svipa til stóru gosanna í Öræfajökli og Kötlu.  “Kosturinn” við slíkt gos í Bárðarbungu er sá að eldfjallið er fjarri byggð og flóðið yrði alllengi á leið í átt að láglendi.  Það gæfist því góður tími til að koma fólki af hættusvæðum en vissulega verða einhver mannvirki í hættu á láglendi ef til meiriháttar jökulhlaups kæmi.

Staðan sem nú er uppi á óróasvæðinu, nokkuð stöðugt sig í öskjunni upp á hálfan til einn meter á sólarhring, jarðskjálfta um M5 af stærð nokkuð reglulega 1x á sólarhring og stöðuga en ekki  mjög mikla gosvirkni í Holuhrauni, gæti þessvegna varað í einhverjar vikur í viðbót.  Meiriháttar breytingar mundu væntanlega gera einhver boð á undan sér.

 

Scroll to Top