Gosið í Holuhrauni tveggja mánaða gamalt

Birta á :
Myndin er fengin af facebook síðu Jarðvísindastofnunar.  Ármann Höskuldsson tók myndina.
Myndin er fengin af facebook síðu Jarðvísindastofnunar. Ármann Höskuldsson tók myndina.

Gosið sem hófst að morgni 31. ágúst er nú tveggja mánaða gamalt og ekkert sem bendir til þess að því sé að ljúka.   Nýja hraunið er að nálgast 70 ferkílómetra að flatarmáli.  Rúmmál öskjusigsins í Bárðarbungu er orðið um 1 rúmkílómetri og má ætla að rúmmál hraunsins sé nálægt því enda bendir allt til þess að öskjusigið sé bein afleiðing kvikufærslu frá Bárðarbungu að Holuhrauni.

Gosið og umbrotin í Bárðarbungu hafa verið ótrúlega stöðug vikum saman.  Askjan sígur um 30-40 cm á dag, mikil skjálftavirkni fylgir siginu og gosið kraumar áfram.  Mjög hægt hefur dregið úr gosinu.

Í upphafi gossins nefndu vísindamenn þrjá möguleika helst varðandi framhald umbrotanna:

1.  Öskjusig í Bárðarbungu hættir áður en það verður mikið og gosið í Holuhrauni fjarar út.

2.  Stórt öskjusig í Bárðarbungu.  Gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex.  Mögulegt að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli.  Einnig er mögulegt að sprungur opnist annarstaðar undir jöklinum.

3. Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti.  Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi.  Öskufall gæti orðið nokkuð.

Eins og umbrotin hafa þróast lítur út fyrir að sviðsmynd 2 verði ofan á, þ.e. langvinnt gos í Holuhrauni, þó líklega án frekari gosa annarsstaðar í kerfinu.  Ekki er þó hægt að útiloka möguleikann á gosi í öskjunni.  Við sigið brotnar bergið og sprungur myndast í öskjugólfinu.  Þetta getur auðveldlega orðið nógu mikið jarðrask til þess að kvika fari að leita upp með þessum sprungum og brotum.   Ef það gerist þá má búast við öflugu en líklega stuttu sprengigosi í öskjunni.  Mundi það tappa hratt af kerfinu og líklega verða til þess að gosið í Holuhrauni  fjarar út.

Helsta vandamálið sem þessi umbrot hafa skapað enn sem komið er, er brennisteinsmengun.  Þetta gæti orðið enn meira vandamál í vetur í köldu og stillu veðri.

Scroll to Top